Breytt umhverfisvitund

Mynd:  / 

Breytt umhverfisvitund

30.01.2019 - 15:46
Í nýjasta þætti Náttúrulaus var rætt við þær Ágústu Gunnarsdóttur, Jóhönnu Ásgeirsdóttur og Vigdísi Bergsdóttur, en þær hafa unnið saman að verkefnum sem snúa að umhverfisvitund undir nafninu Endur Hugsa.

Sigrún Eir Þorgrímsdóttir skrifar:

Í þeim verkefnum hafa Ágústa, Jóhanna og Vigdís náð að finna stað þar sem að list, verkfræði og umhverfisvitund mætast og úr því samstarfi varð meðal annars gróðurhúsið þeirra Geislahvelfingin til. Geislahvelfingin er unnin úr endurunnu efni og það sem gerir gróðurhúsið svo áhugavert er að það er að hluta til búið til úr geisladiskum og er óvenjulegt í lögun. Hugmyndin af hönnunni er eftir Buckminster Fuller og hægt er að lesa frekar um hönnunina hans hér. Hópurinn hefur haldið ýmsar smiðjur fyrir börn og fullorðna og hægt er að skoða verkefnin þeirra hér.

Umhverfisvitund hefur tekið ýmsum breytingum síðastliðin ár og fá börn í leik- og grunnskólum nú fræðslu um málefni umhverfisins þar sem nú er búið að festa þau í aðalnámskrá. Samkvæmt stelpunum voru börnin mjög meðvituð um umhverfismál og höfðu mörg tekið þátt í svipuðum verkefnum í leikskólanum sínum, en þetta er mjög ólíkt því hugarfari sem var ráðandi þegar við vorum í leik- og grunnskóla fyrir 10-20 árum.

En það má þó ekki gleyma því að áður fyrr vorum við mikið umhverfisvænni, eins og Ágústa og Vigdís komu inn á, muna mæður þeirra eftir þeim tíma sem þær sáu plast í fyrsta skipti og venjur eins og að nota fjölnota poka í verslunarferðum vék fyrir plastpokanum. Þannig fórum við nokkur skref til baka í umhverfisvitund og þarf nú að vinna hart að því að innleiða þessa hugsun aftur. Það getur reynst mun erfiðara heldur en að segja það, þar sem þægindin sem koma með einnota hlutum eru svo mikil.

En það er alltaf smá ljós í myrkrinu og Vigdís bendir á skemmtilega grein á The Guardian þar sem að ungt fólk er að færa sig úr borginni í sveitina til þess að taka þátt í að snúa þessari þróun við. Sömuleiðis er fólk farið að leita í umhverfisvænni leiðir í innkaupum, margir velja að versla aðeins innlent grænmeti eða kaupa það frekar þegar valið stendur á milli innlendrar framleiðslu og erlendrar. Einnig er krafan um minna plast og umbúðarlausar vörur orðin háværari og markaðurinn er hægt og rólega að svara þeirri eftirspurn. Þetta eru lítil en þörf skref í átt að betri umhverfisvitund almennings sem vonandi halda áfram og verð enn stærri og yfirgripsmeiri innan skamms.

Hlustaðu á nýjasta þáttinn af Náttúrulaus í spilaranum hér fyrir ofan. Þátturinn er á dagskrá í RÚVnúll streyminu alla mánudaga klukkan 21 og er eftir það aðgengilegur í spilaranum á ruv.is og í öllum helstu hlaðvarpsveitum.