Breytt skattkerfi liðki fyrir kjarasamningum

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson/RÚV
Forsætisráðherra hefur áhyggjur af kröfum um miklar launahækkanir. Það sé sameiginlegt hagsmunamál allra að halda verðbólgu niðri og stjórnvöld séu tilbúin að leggja sitt af mörkum. Þau undirbúi nú breytingar á skattkerfinu sem ættu að nýtast bæði launafólki og atvinnurekendum.

 

Skattbyrði tekjulægri hópa hafi aukist

Nokkrir verkalýðsleiðtogar krefjast allt að 45% launahækkana og vísa til úrskurða Kjararáðs. Framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins sagðist í fréttum í gær ekki óttast heimsendaspár og sagði ekkert beint samband milli launahækkana og verðbólgu. Fjármálaráðherra, hefur sagt lítið svigrúm til launahækkana og kröfur verkalýðsleiðtoga undarlegar í ljósi kaupmáttaraukningar síðustu ára. En hver er sýn forsætisráðherra? 

„Það hafa orðið launahækkanir undanfarin ár, það hefur orðið kaupmáttaraukning en um leið og launin hafa hækkað þá hefur auðvitað skattbyrði tekjulægri hópanna aukist, eðli máls samkvæmt og það skiptir máli að við skoðum það með gagnrýnum augum,“ segir Katrín Jakobsdóttir.

Verið að greina stöðuna

Nú er unnið að því á vegum forsætisráðuneytisins að greina horfurnar í efnahagsmálum. Katrín segir að ríkisstjórnin, fulltrúar launþega og atvinnulífsins ræði niðurstöðu hennar í ágúst.

„Við erum að sjá núna að það er verið að boða hækkanir sem ég hef áhyggjur af því það skiptir auðvitað líka máli fyrir launafólk að verðbólgunni sé haldið niðri og að vextir verði áfram lækkaðir.“ 

Og eru einhver bein tengsl á milli launahækkana og verðbólgu? 

„Ja, við höfum dæmi um það síðast að þá voru laun hækkuð og verðbólgan fór ekki af stað. Fyrir því voru ýmsar ástæður þannig að í þessu er ekki beint orsakasamhengi, hins vegar höfum við önnur dæmi um að launahækkanir hafi valdið verðbólgu. Þetta eru margir samhangandi þættir sem skipta máli en stóra myndin þarf alltaf að vera undir í öllum þessum samtölum.“

Ekki sitt að meta svigrúmið

Katrín segir ekki sitt að meta hversu mikið svigrúm sé til launahækkana en segir skýrslu hafa sýnt að þeir sem heyrðu undir kjararáð hafi að meðaltali ekki hækkað umfram aðra hópa. 

Taka á húsnæðismálum í samvinnu við sveitarfélög

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að dregið hafi úr samkeppnishæfni atvinnulífsins og það sé mikilvægt að stjórnvöld og vinnumarkaðurinn leiti leiða til að styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs samhliða því að  bæta kjör almennings. Katrín segir að stjórnvöld vilji greiða fyrir samningum með skattkerfisbreytingum og aðgerðum í húsnæðismálum í samvinnu við sveitarfélög. Þá hafi atvinnuleysisbætur og greiðslur úr ábyrgðarsjóði launa þegar verið hækkaðar og ráðist í aðgerðir til að ná betri stjórn á skammtímaútleigu húsnæðis til ferðamanna. Loks hafi kjararáð verið lagt niður. 

„Við undirbúum núna breytingar á skattkerfinu sem ættu að nýtast bæði launafólki og atvinnurekendum, þá erum við að horfa til lækkunar á tryggingagjaldi sem nýtist atvinnureikendum og þess hvernig við getum létt skattbyrði af tekjulægsta fólkinu og lægri millitekjuhópum. Ég held það geti skipt máli fyrir kjarasamninga um áramót að ríkisstjórnin sé að leggja áhersla á þessa hópa í sinni vinnu við endurskoðun á skattkerfinu.“