Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Breytir landslaginu í Hítardal

07.07.2018 - 14:11
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook - Finnbogi Leifsson
„Við höfum ekki náð að komast að orsökum skriðunnar,“ segir Magni Jónsson, sérfræðingur í ofanflóðum á Veðurstofu Íslands um stóra grjótskriðu sem féll úr Fagraskógarfjalli í Hítardal á Mýrum snemma í morgun. Það verði að bíða þar til sérfræðingur Veðurstofunnar kemur á staðinn seinna í dag.

Erla Dögg Ármannsdóttir, bóndi í Hítardal, lýsti skriðunni í hádegisfréttum. Skriðan hafi fallið fyrir neðan eyðibýlið Velli og út í ána. „Stíflan er nokkurra tuga metra há, ég geri mér ekki alveg grein fyrir því, og nokkurra hundruð metra löng og stíflar Hítará algjörlega, það er stóra málið.“ 

Hítará á Mýrum er landsþekkt laxveiðiá og sagði Erla að skriðan hefði hræðileg áhrif á ána. 

„Helstu afleiðingar skriðunnar núna er að hún breytir landslaginu í dalnum og stíflar ána sem er orðin nánast þurr fyrir neðan stíflu,“ segir Magni og segir að hann hafi það eftir þeim sem hann hafi heyrt frá á staðnum.  

„Það sem þarf að meta á næstunni er hvernig vatnssöfnunin er fyrir ofan og hvernig áin finnur sér leið fram hjá stíflunni. Þetta er það stór stífla að það er engin hætta á að hún brjóti sér leið og það verði  einhver flóð í ánni, heldur að þetta gerist hægt.“ 

Finnbogi Leifsson, bóndi í Hítardal, greindi fyrstur frá skriðunni á Facebook síðu sinni í morgun og birti þetta myndskeið sem hefur verið deilt á samfélagsmiðlinum. 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV