Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Breytingarnar „algjör hryllingur“

11.05.2011 - 08:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður LÍÚ segir fyrirhugaðar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu vera algjöran hrylling. Tillögurnar stórskerði rekstrargrundvöllinn og að ekkert samráð hafi verið haft um breytingarnar.

Eftir því sem næst verður komist gerir kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar ráð fyrir að útgerðir leigi aflaheimildir til 15 ára. Framsal aflaheimilda verði takmarkað við gildistöku laganna en það verður úr sögunni eftir 15 ár. Átta prósentum heildarafla verður varið í potta sem nýttir verða sem leigukvóti, byggðakvóti og kvóti strandveiða. Það hlutfall hækkar smám saman og verður fimmtán prósent að 15 árum liðnum. Loks er gert ráð fyrir að veiðigjaldið verði hækkað um sjötíu prósent strax í haust og nemi þá tæpum fimm milljörðum króna. Sú upphæð skiptist milli ríkis og sveitarfélaga á landsbyggðinni.


Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, segir tillögurnar hafa verið unnar í mikilli leynd. Ekkert samráð hafi verið haft við atvinnugreinina. Miðað við fyrstu lýsingar sé þetta algjör hryllingur og geti staðist miðað við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að það eigi að treysta rekstrargrundvöllinn. Honum sýnist miðað við fyrstu yfirlýsingar að verið sé að stórskemma kerfið.


Adolf segir að ekkert tillit hafi verið tekið til sérfræðiálits hagfræðinga sem ekki hafi lokið sinni vinnu. Þeir eigi ekki að skila af sér fyrr en í byrjun júní.