Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Breytingar sem verður að taka alvarlega“

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
„Þarna eru breytingar sem verður að taka alvarlega,“ segir Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, sem í dag flaug ásamt öðrum vísindamönnum yfir Öræfajökul til að skoða aðstæður eftir að gervihnattamyndir sýndu að sigketill í jöklinum hafði dýpkað. Almannavarnir lýstu yfir óvissustigi vegna þessa í gærkvöld.

„Við byrjuðum reyndar á að fara yfir Bárðarbungu og flugum svo yfir Öræfajökul og staðfestum í rauninni þetta sem kom fram í gær: að það hefur dýpkað sigketill þarna uppi í öskjunni. Það hefur mótað fyrir honum áður þannig að það má helst segja að þessi skjálftavirkni og aukna virkni sem hefur verið í jöklinum undanfarið, hún hefur kannski ýtt undir eða hvatt jarðhitakerfið,“ segir Björn, sem segir að þarna gæti verið að myndast nýtt jarðhitakerfi undir jöklinum eða að eldra kerfi að færast í aukana.

Spurður hvort vísbendingar séu um kvikuhreyfingar segir Björn að í eldstöðvum sem safni kviku sé vissulega hreyfing, en ekkert bendi til þess að hún sé að leita til yfirborðs. „Það eru engar sterkar vísbendingar sérstaklega um að eldgos sé að hefjast en við þurfum að taka öll svona ný fyrirbrigði í svona stórum eldstöðvum alvarlega, læra af þeim og fylgjast svo með þeim áfram.“