Breytingar á bótakerfinu í bígerð

21.04.2018 - 12:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður Öryrkjabandalagsins er ánægður með að félagsmálaráðherra hafi skipað samráðshóp um að einfalda almannatryggingakerfið og efla atvinnuþátttöku öryrkja. Vinnumarkaðurinn sé þó ekki tilbúinn til að taka á móti fólki með skerta starfsgetu og lykilatriði sé að afnema krónu á móti krónu skerðinguna.

Í samráðshópnum sem Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra skipaði í gær eru fulltrúar stjórnmálaflokka, samtaka atvinnurekenda, samtaka launafólks, fulltrúi Þroskahjálpar og formaður Öryrkjabandalagsins, Þuríður Harpa Sigurðardóttir. Í stjórnarsáttmálanum segir að ríkisstjórnin muni efna til samráðs við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega um breytingar á bótakerfinu með það að markmið að skapa sátt um að einfalda kerfið, tryggja framfærslu örorkulífeyrisþegar og efla þá til samfélagsþátttöku. Nú þegar hefur verið unnið að því að útfæra leiðir um innleiðingu starfsgetumats. Þessi nýskipaði samráðshópur á að gera tillögur að nýju greiðslukerfi sem styður við starfsgetumatið. Kerfið á að tryggja hvata til atvinnuþátttöku. Hópurinn á að skila skýrslu 1. október. Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalagsins er ánægð með að búið sé að koma þessari vinnu á laggirnar en sér fyrir sér að breyta þurfi ýmsu á vinnumarkaðnum:

„Með hvaða hætti vinnumarkaðurinn er aðlagaður og undirbúinn til þess að taka við fólki með skerta starfsorku.“ 

Heldurðu að það sé ekki?

„Hann er það alla vega ekki í dag.“ 

Ein helsta krafa Öryrkjabandalagsins er að afnema svokallaða krónu á móti krónu skerðingu það er að segja að fyrir hverja krónu sem fólk vinnur sér inn sé ekki tekin ein króna af örorkubótum. 

„Ef skerðingin er tekin út strax í dag þá er það hvati fyrir örorkulífeyrisþega að fara út á vinnumarkaðinn og leita að vinnu og fá vinnu þannig að framfærslan sé ekki eða launin séu ekki tekin strax til baka aftur með skerðingum.“

Ykkur finnst það þá lykilatriði að það verði þá afnumið um leið?

„Okkur finnst bara mikilvægt og lykilatriði að það verði afnumið sem fyrst,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi