Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Brexit kallar á mikla fjölgun í tollvarðastétt

27.01.2019 - 02:31
In this aerial view taken from video, part of the miles long queue of traffic outside Dover, England, waiting to cross the English Channel into France, Saturday July 23, 2016, as France is under a state of emergency.  Heightened French border security
YFirvöld beggja vegna Ermarsunds hafa miklar áhyggjur af löngum biðröðum og miklum töfum í fólks- og vöruflutningum þegar Bretland gengur úr ESB Mynd: AP - SKY
Það er víðar en í Bretlandi sem yfirvöld búa sig undir mögulegar afleiðingar þess að Bretar gangi úr Evrópusambandinu í lok mars án þess að fyrir liggi samningur um viðskilnaðinn. Mikilvægur þáttur í þeim undirbúningi er fjölgun tollvarða, sem ætlað er að draga úr þeim glundroða og töfum sem skapast geta á landamærum og landamærastöðvum, jafnt í fólksflutningum sem vöruflutningum.

FJölga tollvörðum og eftirlitsmönnum

Í öllum helstu nágrannaríkjum Bretlands á meginlandinu er verið að fjölga verulega í tollvarðastéttinni. Þýsk tollayfirvöld ætla að fjölga þeim um minnst 900, en landssamband þýskra tollvarða telur að Brexit - hvort heldur með eða án samnings - kalli á minnst 1.300 nýja tollverði, segir í frétt der Spiegel.

Írland

Á Írlandi, eina Evrópusambandsríkinu með bein landamæri að Bretlandi, er ætlunin að ráða um 1.000 manns til að styrkja tollgæslu og eftirlit með innfluttum matvælum og öðrum varningi frá Bretlandi. Ekki liggur fyrir hversu margir hafa þegar verið ráðnir en fjárlögin fyrir 2019 gera ráð fyrir 1,5 milljarði evra, um 200 milljörðum króna, til aðgerða vegna Brexit.

Sem dæmi um slíkar aðgerðir má nefna 33 nýjar tollskoðunarstöðvar í Dyflinnarhöfn og gerð 270 bílastæða fyrir vöruflutningabíla og tilheyrandi skoðunarstöðvar fyrir lifandi búfé.

Holland

Í frétt der Spiegel segir að Holland sé ein helsta miðstöð vöruflutninga til Bretlands, enda er höfnin í Rotterdam sú stærsta í Evrópu. Hollenska stjórnin hefur eyrnamerkt 100 milljónir evra, 13,6 milljarða króna, fyrir sérverkefni í tengslum við Brexit á þessu ári, og hyggst fjölga tollvörðum um 900.

Frakkland og Belgía

Í Frakklandi hyggjast tollayfirvöld ráða nær 600 tollverði og dýralækna og verja um sjö milljörðum króna í umbætur á flugvöllum og höfnum, til að forðast biðraðir og tafir. Loks ætla Belgar að ráða 115 tollverði og eftirlitsmenn, einkum til að auka eftirlit með innfluttningi á dýrum og plöntum. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV