Bretum fannst of dimmt á Patreksfirði

Mynd: RÚV / RÚV

Bretum fannst of dimmt á Patreksfirði

26.12.2016 - 20:30

Höfundar

Ljósastaurar eru ekki allir eins þó að það sé nú svipmót með þeim flestum. Á Patreksfirði standa enn ljósastaurar sem settir voru upp við upphaf raflýsingar bæjarins fyrir rúmum sextíu árum. Þessir staurar eru steinsteyptir en ekki er vitað um ljósastaura úr steinsteypu annars staðar á landinu.

Staurarnir voru fluttir inn frá Bretlandi en það voru einmitt breskir togarasjómenn sem þrýstu á um að komið yrði upp ljósastaurum í bænum því að þegar þeir voru að veiðum á Patreksfirði þá fannst þeim nokkuð dimmt yfir þorpinu.

Ljósastaurunum steyptu hefur fækkað nokkuð í áranna rás en Gunnlaugur Björn Jónsson arkitekt, einn þeirra sem hefur unnið að varðveislu stauranna, segir að reynt verði að varðveita þá sem eftir eru. „Við ætlum að sameina þá sem standa enn, þannig að þeir myndi eina heild enda ríma þeir vel við gömlu húsin á Patreksfirði. Þá erum við að reyna að finna út úr því hvar staurarnir voru framleiddir. Við vitum að það var talsvert gert af steinsteyptum staurum í Bretlandi á eftirstrísðsárunum en þetta var nokkurs konar atvinnubótavinna fyrir breska hermenn,“ segir Gunnlaugur.

Landinn kynnti sér sögu ljósastauranna á Patreksfirði. Þáttinn í heild er hægt að sjá hér.