Bretar og Bandaríkjamenn fá hægt sjónvarp

21.03.2015 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Svokallað hægt sjónvarp, sem notið hefur vinsælda í Noregi, er nú á leið á sjónvarpsskjái bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum.

 

Ein og hálf milljón Norðmanna fylgdist með sjö tíma útsendingu ríkisútvarpsins NRK af útsýninu úr lest á leið frá Bergen til Ósló fyrir sex árum. Útsendingin markaði byltingu í norskri sjónvarpssögu, síðan hafa Norðmenn fengið að fylgjast með siglingu skemmtiferðaskips meðfram norsku strandlengjunni, eldiviði brenna í kamínu, ullarpeysu prjónaðri og beinni útsendingu frá fuglahúsi, svo fá dæmi séu nefnd.

Fyrirbærið, sem kallað er „hægt sjónvarp", hefur vakið heimsathygli og er nú á leið í útrás. Þrír „hægir" þættir að norskri fyrirmynd verða á dagskrá breska ríkissjónvarpsins í vor. Breskir sjónvarpsáhorfendur geta farið að hlakka til að fylgjast með báti sigla niður skipaskurð, dagskrárlið sem BBC lýsir sem „mótefni við ofsahraða nútímasamfélagsins".

Þá verður margra klukkustunda löng útsending frá listasafninu National Gallery án nokkurs þáttastjórnenda, tals eða tóna. Að lokum verður einnig þáttasería þar sem fylgst er smíði ýmissa hluta, eins og stálhnífa og viðarstóla. Bandarískt framleiðslufyrirtæki hyggur einnig á að framleiða hægt efni fyrir bandarískan markað á næstunni, en upplýsingar um hver viðfangsefni þess verða eru enn á huldu.

verai's picture
Vera Illugadóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi