Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bretar herða lög um áhorf á klám

20.04.2019 - 13:52
Erlent · Bretland · Klám · tækni · Tölvur
Mynd með færslu
 Mynd: Luis Villasmil - Unsplash
Ný lög um áhorf á klám taka gildi í Bretlandi í sumar. Samkvæmt lögunum þurfa þau sem vilja horfa á klám á netinu að sanna að þau séu eldri en 18 ára áður en áhorf hefst.

Lögin taka gildi um miðjan júlí og þurfa þær efnisveitur sem lögin ná til að finna leið til að krefja þau sem heimsækja síðurnar að sanna á sér deili, til dæmis með því senda afrit af skilríkjum.

Bresk stjórnvöld segja þetta skref í átt að því að gera Bretland að öruggasta stað í heimi - á netinu. Nýju lögin geri það að verkum að ólíklegra verði að börn rekist óviljandi á efni á netinu sem sé ekki við þeirra hæfi.

Gagnrýnendur telja að það verði ekki erfitt fyrir börn undir 18 ára aldri, sem leitast eftir því að horfa á klám, að verða sér úti um það með öðrum leiðum. Þá hafa margir bent á að það sé varhugavert að notendur gefi upp persónupplýsingar samhliða áhorfi sínu. Það gæti haft slæmar afleiðingar fyrir fólk ef netþrjótar kæmust yfir slíkar upplýsingar. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV