Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Breskur milljarðamæringur kaupir íslenskt land

15.12.2016 - 19:25
Efnaðir menn hafa keypt fjölda jarða í Vopnafirði en þeim fylgja veiðiréttindi í laxveiðiám. Þeirra á meðal er einn ríkasti maður Bretlands, sem keypti þrjár jarðir í sveitinni og segir það lið í að vernda villta laxastofna.

Margar jarðir í Vopnafirði eru mjög eftirsóttar enda liggja þær ýmist að Selá eða Hofsá sem eru gjöfular laxveiðiár. Sterkefnaðir menn hafa keypt jarðir við árnar til að eignast veiðiréttindi og byggt þar veiðihús. Samkvæmt úttekt Austurfréttar eru alls 23 af 70 bújörðum í Vopnafirði beint eða óbeint í eigu tveggja manna. Jóhannesar Kristinssonar og Jim Ratkliff en hann er samkvæmt lista Forbes fimmti ríkasti maður Bretlands. Jóhannes hefur lengi átt jarðir í Vopnafirði en í október keypti Ratkliff jarðirnar Síreksstaði, Guðmundarstaði og Háteig. „Auðvitað er alltaf ákveðinn beygur í mönnum ef stórir aðilar eignast stór svæði. Það er alveg ljóst að sveitastjórn mun kalla eftir fundi með þeim þegar við erum búnir að melta þetta. Það eru örugglega skiptar skoðanir um þetta hér eins og annars staðar,“ segir Ólafur Aki Ragnarsson, sveitarstjóri á Vopnafirði. 

Ratkliff var í Vopnafirði í gær og flaug af landi brott í einkaþotu frá Egilsstaðaflugvelli síðdegis í dag. Hann gaf ekki kost á viðtali. Í yfirlýsingu segist hann kaupa jarðirnar til að taka þátt í verndun villtra laxastofna við Atlantshaf en hann er mikill áhugamaður um laxveiði. Þá vilji hann endilega að landbúnaður haldi áfram á jörðum í hans eigu. Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Strengs, sem heldur utan um veiðileyfi í Selá og Hofsá segir að áfram gildi reglur sem tryggi rétt manna til að fara um landið og ekki standi til að banna skotveiði á jörðunum. Ólafur Áki segir að hingað til hafi Vopnfirðingar góða reynslu af landeigendum við veiðiárnar. Þeir haldi húsum sínum vel við og séu viljugir til að leigja jarðirnar út. „Það hafa ekki fylgt þessu nein boð og bönn og frekar hafa menn verið á þeirri skoðun að menn fái að nýta landið og hafa leigt jarðirnar og viljað halda þeim í byggð og það sé búið á þeim og menn geti fengið að fara um landið,“ segir Ólafur Áki. 

Eftirfarandi yfirlýsingu fékk fréttastofa frá upplýsingafulltrúa Jim Ratcliffe:

Jim Ratcliffe has through his ownership of Halicilla Limited recently acquired properties in Vopnafjörður in addition to the stakes he owns through his part ownership of Veiðiklúbburinn Strengur. Jim has fished in the rivers around Vopnafjörður for a number of years and has grown to admire and enjoy Iceland, and the Vopnafjörður region in particular, through his frequent visits.

Jim is committed to investing in conservation projects and has invested in property in Vopnafjörður to work with the existing landowners and inhabitants to conserve the unique environment that Vopnafjörður provides. He is proud and honoured to be able to play a part in protecting and preserving the Atlantic salmon stocks and fishing in the area. He recognises that land and river are intimate, he intends to continue working with the farmers to maintain the agriculture of the area and the long term condition of the land.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV