
Breskir stjórnmálamenn á brúnni yfir Svínasund
Innan við ár til stefnu
Allir virðast sammála um að þessar gömlu bandalagsþjóðir umhverfis Norðursjóinn séu að falla á tíma. Bretar verða ekki með í Evrópusambandinu lengur en til 20. mars á næsta ári. Það er innan við ár til stefnu og enginn veit hvernig samskiptum þessara þjóða, fólksflutningum og viðskiptum almennt verður háttað. Þarf að semja um hvert einstak atriði hverju sinni? Það yrði mjög flókið og fæli í sér ótal samninga og óvissu.
Tekur því ekki að nefna smáríkin
Það er talað um margar leiðir sem gætu gilt til frambúðar. Kanadísku leiðina með tvíhliða fríverslunarsamningi eða það sem farið er að kalla norsku leiðina í samskipunum við Evrópusambandið. Þá er átt við samninginn um Evrópska efnahafssvæðið – EES. Það er sá samningur sem gömlu Efta-ríkin Noregur, Ísland og Liecthenstein hafa sameiginlega við sambandsstjórnina í Brussel.
Í breskum fjölmiðlum er orðin hefð fyrir að kalla EES „norsku leiðina“ því samningurinn hefur gilt kjölfar þess að Norðmenn höfnuðu aðild að Evrópusambandinu haustið 1994. Ekki þykir taka því að nefna smáríkin Ísland og Licthenstein í þessu samhengi. Og Norðmenn hafa jafnan litið svo á að þeir beri hitann og þungann af EES-útgerðinni þótt aðrir fái að fljóta með.
Solberg á faraldsfæti
Þetta er ástæða þess að Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, hefur langt land undir fót og gist bæði Brussel og Lundúni að því er virðist til að bjarga málum á síðustu stundu. Hún hefur bæði sagt að Bretar geti vel verið með á Evrópska efnahagssvæðinu en um leið að það væri út í hött fyrir þjóð sem í þjóðaratkvæðagreiðslu hefur hafnað öllum meginatriðunum sem samningurinn um Evrópska efnahafssvæðið felur í sér.
Þar á meðal eru frjálsir flutningar á vinnuafli og varningi, ákvæði sem sennilega réðu úrslitum um að meirihluti Breta kaus Brexit. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið felur einfaldlega í sér alla helstu gallana sem Bretar sáu við aðildina að Evrópusambandinu.
„Þetta er ekkert fyrir ykkur“
Þess vegna er í norskum fjölmiðlum látið i það skína að ferð Ernu Solberg á fund Theresu May, starfsystur sinnar í Downingstræti 10, hafi verið einskonar farandkennsla vegna vankunnáttu um „norsku leiðina“. Boðskapur Ernu Solberg til Breta var: Þið megið alveg sækja um en þetta er ekkert fyrir ykkur.
Theresa May ku ekki hafa sýnt „norsku leiðinni“ sérstakan áhuga en fullyrt er að flokksmenn hennar séu margir á örðu máli. Þeir hafa farið í kynnisferðir til Svínasunds á landamærum Noregs og Svíþjóðar og þar með landamærum milli Noregs og Evrópusambandsins.
Samskiptin vandræðalaus
Norska leiðin“ liggur um brúna yfir Svínasund. Samskipti þar ganga vandræðalaust fyrir sig þótt norskir kaupmenn kvarti sáran undan tíðum verslunarferðum landa sinna yfir sundið til að kaupa mat á Evrópusambandsverði.
Og að farandverkafólk frá Austur-Evrópu á það til að smygla áfengi og tóbaki yfir sundið. Bretar gætu vel hugsað sér að Ermarsundið yrði einskonar Svínasund með tollgæslu og smá veslunarleka yfir sundið en samt áfallalausum samskiptum. En það eru engar hömlur á flutningi vinnuafls yfir Svínasund enda væri það brot á samningum um Evrópska efnahagssvæðið.
Áminning um hagsmuni Noregs
Hér í Noregi er enginn áhugi á að breyta EES-samningum. Miðflokkurinn, flokkur bænda, hefur þó sagt að Noregur væri betur staddur án þessa samnings en norskir bændur vilja þó umfram allt halda í frjálsa flutninga á vinnuafli því þeir eru háðir erlendu farandverkafólki við árstíðabunda vinnu.
En ferð Ernu Solberg til Lunduna var ekki bara fræðsluferð heldur líka til að minna á að Norðmenn eru háðir viðskiptum við Bretland og hafa síst af öllu hag af Brexit. Bretar hefur helstu kaupendur á olíu, gasi og fiski frá Noregi. Bretland er mikilvægasta markaðsland Norðmanna. Fjöldi Norðmanna vinnur í Bretlandi og fjöldi Breta í Noregi.
„Best ef allt yrði gott eins og áður var“
Boðskapurinn hjá norska forsætisráðherranum var því að vara Breta við draumum um einhverja „norska leið“ í stað aðildar að Evrópusambandinu og að best væri fyrir alla að Bretar hættu bara við Brexit og allt yrði gott eins og áður var.