Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Breskir embættismenn: Efnahagsleg stríðsaðgerð

19.03.2016 - 18:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Breskir embættismenn lýsa aðgerðum Breta gegn Íslendingum í hruninu sem efnahagslegu stríði og undrast væg viðbrögð íslenskra stjórnvalda. Þeir töldu sig hafa samkomulag við Íslendinga um flutning Icesave í dótturfélag með stuðningi íslenska ríkisins. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Eiríks Bergmanns, prófessors í stjórnmálafræði, sem ræddi við embættismenn í breska fjármálaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu auk manna í breska Verkamannaflokknum.

„Þeir lýsa þessu sjálfir í viðtölum við mig sem einhvers konar efnahagslegri stríðsaðgerð sem farið hafi verið í gegn Íslandi,“ segir Eiríkur um það hvernig Bretar neituðu íslensku bönkunum um fjárstuðning sem þeir veittu öðrum og yfirtóku þá auk þess að beita hryðjuverkalöggjöf gegn Íslendingum. Hann greindi frá niðurstöðunum á ráðstefnu Akureyrarakademíunnar um alþjóðamál í dag.

„Þegar í ljós kemur að menn ætla að fara í hörkuna, efnahagslega stríðsaðgerð sem þeir orða sjálfir þannig, þá ákveða menn að gefa í og gera þetta af enn meiri hörku en þurfti,“ segir Eiríkur um samtöl sín við bresku embættismennina. „Það mundi hjálpa til þess að slá réttan tón pólitískt heima fyrir í þeirri viðleitni að bjarga bönkunum en vera harðir gegn bankamönnum.“

Töldu sig hafa samkomulag um flutning Icesave

Eiríkur segir að Bretar hafi á þessum tíma reynt að fá ríki heims til að bjarga hinu alþjóðlega fjármálakerfi. Þetta hafi Íslendingar ekki getað og verið á annarri leið.  „Það liggur alveg kristalskýrt fyrir að Bretar telja sig hafa samkomulag á háu stigi við íslensk stjórnvöld, eins og þeir orða það sjálfir, um það að fá 200 milljónir punda með Icesave-reikningunum til Bretlands og þannig inn í breska bankahelgi.“

Þessu hafi þeir trúað til föstudagsins 3. október. Þá helgi rann upp fyrir þeim að svo væri ekki og ákveðið var að yfirtaka starfsemi íslensku bankanna. Þeir hafi ákveðið að nota Ísland sem víti til varnaðar. „Sem felst í því að um leið og þeir bjarga fjármálakerfinu með gríðarlegu skattfé, sem er umdeilanlegt, þá eru þeir á sama tíma harðir við þá bankamenn sem standa fyrir utan samkomulagið, sem voru íslensku bankarnir.“

Eiríkur tekur fram að íslenskir embættismenn og ráðamenn kannist ekki við slíkt samkomulag. Þetta lýsi þó skoðunum og trú Breta sumarið og haustið 2008.

Símtal fjármálaráðherranna átylla fyrir aðgerðunum

Eiríkur segir að samtal fjármálaráðherra landanna, Alastair Darling og Árna Mathiesen, hafi verið átylla en ekki ástæða fyrir aðgerðunum. „Mér er líka sagt að það hafi verið mistök hjá Íslendingum, sem við vissum auðvitað ekki þá, en það hafi samt verið mistök að taka þetta viðtal við Alastair Darling sem Árni Mathiesen tók að morgni þriðjudagsins. Því það hafi verið nauðsynleg átylla fyrir hann til þess að fara síðan í aðgerðina daginn eftir sem var beiting hryðjuverkalaganna. Án þessa samtals hefði það verið miklu erfiðara.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV