Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Breska þingið beitti valdi í máli Facebook

25.11.2018 - 05:08
Mynd með færslu
Mark Zuckerberg á ráðstefnu um Facebook í dag. Mynd: AP
Breska þingið beitti valdi til þess að komast yfir skjöl sem ættu að varpa nýju ljósi á gagnadreifingu Facebook til fyrirtækisins Cambridge Analytica. Mark Zuckerberg, stjórnandi Facebook, hefur ítrekað neitað að svara spurningum breskra þingmanna.

Skjölin eru talin geyma mikilvægar upplýsingar um gögn og persónuverndarstjórnun Facebook sem leiddi til þess að Cambridge Analytica gat sótt upplýsingar um 87 milljónir bandarískra notenda samfélagsmiðilsins. Þar á meðal er talið að tölvupóstsamskipti Zuckerbergs við aðra stjórnendur Facebook sé að finna í skjölunum.

Guardian hefur eftir Damian Collins, formanni menningar-, fjölmiðla- og íþróttanefndar breska þingsins, að gripið hafi verið til sjaldgæfra ráða til þess að komast yfir skjölin. Sótt var að stofnanda hugbúnaðarfyrirtækisins Six4Three og hann beðinn um að færa þingnefndinni skjölin, þar sem hann var í viðskiptaferð í Lundúnum. Þegar hann neitaði því var lögreglumaður sendur á hótelherbergi hans til þess að senda honum lokaviðvörun. Hann fékk tvær klukkustundir til þess að koma skjölunum til þingsins. Enn neitaði hann, og var hann þá fluttur með valdi inn á þingið, þar sem honum var gerð grein fyrir því að hans biðu fjársektir og jafnvel fangelsi ef hann léti ekki skjölin af hendi.

Six4Three komst yfir skjölin þegar fyrirtækið höfðaði mál gegn Facebook. Fyrirtækið segir þau sýna að Facebook hafi ekki aðeins vitað af göllum í geymslu á persónuupplýsingum, heldur nýtt sér þá og óbeint látið gagnaúrvinnslufyrirtæki á borð við Cambridge Analytica vita af brestinum. Talsmaður Facebook segir ekkert hæft í fullyrðingum Six4Three, og samfélagsmiðillinn ætli að halda vörnum áfram.

Collins sagði ekki fordæmi fyrir svona aðgerðum, en málið eigi sér heldur engin fordæmi. „Við fengum engin svör frá Facebook og við teljum að skjölin innihaldi upplýsingar sem eigi mikið erindi við almenning,“ hefur Guardian eftir honum. Talið er að skjölin sýni hvernig ákvarðanir um geymslu gagna á Facebook voru teknar á árunum áður en Cambridge Analytica komst yfir þau. Þar á meðal gætu leynst upplýsingar um hversu mikið Zuckerberg og aðrir stjórnendur vissu.

Zuckerberg hefur ítrekað neitað beiðni breskra þingmanna um að svara spurningum þeirra. Sú ákvörðun hans, auk misvísandi svara annars stjórnanda Facebook fyrir þinginu í febrúar, hafi neytt nefndina til þess að leita annarra leiða eftir svörum.

Vegna máls Six4Three gegn Facebook í Bandaríkjunum er opinberun skjalanna í höndum dómstóls í Kaliforníu. En þar sem breska þingið krafðist skjalanna í lögsögu þess í Lundúnum, átti eigandi Six4Three ekki annarra kosta völ en að afhenda skjölin. Facebook segir bresku þingnefndina ekki hafa leyfi til þess að fara yfir gögnin vegna lögverndarinnar í Kaliforníu, en óljóst er hvort fyrirtækið getur nokkuð gert til að koma í veg fyrir það.