Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Breska og indverska sendiráðið vinna í málinu

27.12.2018 - 15:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Bæði sendiráð Bretlands og Indlands eru að safna upplýsingum um farþega bílsins sem lenti í umferðarslysi á Skeiðarársandi í morgun. Þrír létust í slysinu og fjórir hafa verið fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík.

Meirihluti farþega bílsins voru breskir ríkisborgarar. Ekki hefur verið staðfest hversu margir þeir voru, né af hvaða þjóðerni aðrir farþegar bílsins eru. Þá er hefur fréttastofa ekki upplýsingar um hvaðan fólkið sem lést var.

Samkvæmt heimildum fréttastofu voru fjórir fullorðnir og þrjú börn í bílnum. Staðfest er að í það minnsta eitt barnanna lést.

Svo virðist sem að ökumaður jeppabifreiðarinnar hafi misst stjórn á bílnum með þeim afleiðingum að bíllinn fór í gegnum vegriðið á brúnni yfir Núpsvötn. Bíllinn hafi ekki farið í ána heldur lent á þurru á aurunum. Í hádegisfréttum sagði Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, ómögulegt að segja með vissu hver orsök slyssins hefðu verið. Hálka gæti hafa myndast á brúnni.