Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Breiðdalshreppur sameinist Fjarðabyggð

16.10.2017 - 12:17
Mynd með færslu
Breiðdalsvík. Mynd: - - breiddalsvik,is
Lagt er til að Breiðdalshreppur sameinist stærra sveitarfélagi í nýrri skýrslu Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri. Sameining við Fjarðabyggð liggi beinast við en sameining við Fljótsdalshérað sé þó ekki útilokuð.

Rekstur Breiðdalshrepps hefur verið þungur síðustu ár. Á um 25 ára tímabili hefur íbúum fækkað eftir að skip og kvóti hurfu á braut og í byrjun árs bjuggu 182 í hreppnum. Reynt hefur verið að sporna við fækkun með sérstökum byggðakvóta. Fiskvinnsla er þó enn ekki orðin stöðug á staðnum en meiri afla hefur verið landað í höfninni.

Skuldir hreppsins hafa verið miklar, ekki síst vegna 13 félagslegra íbúða sem ekki hafa staðið undir sér. Eftir síðustu sveitastjórnarkosningar var ákveðið að ráða ekki sveitarstjóra heldur skyldi skólastjóri grunnskólans halda utan um rekstur hreppsins og oddvitinn vera í forsvari. Skuldir sem hlutfall af tekjum hafa lækkað síðustu ár, voru 199% í árslok 2014 en 141% um síðustu áramót. Hreppurinn samdi við innanríkisráðuneytið og eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga um fjárhagslega endurskipulagningu í febrúar 2015 en hluti af samkomulaginu var að gera skýrslu um mögulega sameiningu.

Skýrslan sem ber yfirskriftina samfélagsgreining og sameiningarkostir var rædd á fundi sveitastjórnar á föstudag og eru helstu niðurstöður að Breiðdalshreppur sé lítil og óhagstæð rekstrareining sem leiði af sér brothætta stjórnsýslu. Á sama tíma hafi verkefnum sveitarfélaga fjölgað sem kalli á mun meiri stjórnsýslu og umsvif en áður með tilheyrandi kostnaði. Ferðaþjónusta hafi skapað störf en fækkun íbúa yfir langt tímabil haft vond áhrif á rekstur og þá þjónustu sem sveitarfélagið getur veitt íbúum. Skýrsluhöfundar telja að erfitt gæti orðið að fá íbúa til að gefa kost á sér í sveitarstjórn og nefndir enda megi merkja minni pólitíska þátttöku.

Til að sporna gegn fækkun íbúa var verkefninu „Breiðdælingar móta framtíðina“ komið á laggirnar en það er hluti að vinnu Byggðastofnunar sem kallast Brothættar byggðir. Skýrsluhöfundar telja ekki enn tímabært meta langtímaárangur af því. Þrátt fyrir ágæta grósku og nýsköpun standi atvinnulífið óstyrkum fótum. Vægi landbúnaðar og sjávarútvegs hefur minnkað en ferðaþjónusta aukist.

Fram kemur í skýrslunni að ýmsir innviðir í Breiðdalshreppi þarfnist viðhalds og endurbóta, svo sem götur, fráveita, skóli og leiguíbúðir sem hreppurinn á. Viðræður um sameiningu sé rökrétt næsta skref. Af landfræðilegum ástæðum sé sameining við Fjarðabyggð besti kosturinn með samlegð í huga. Skynsamlegt væri að sameina skólana á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði þó skólar yrðu áfram starfræktir á báðum stöðum. Breiðdalshreppur á nú þegar í samstarfi við Fjarðabyggð um félagsþjónustu og slökkvilið. Sameining við Fljótsdalshérað væri einnig möguleg en þá yrði fjallvegurinn um Breiðdalsheiði farartálmi á veturna.

Til stendur að kynna skýrsluna á íbúafundi á Breiðdalsvík á fimmtudag kl. 19:30 í grunnskólanum og í framhaldinu tekur sveitarstjórn ákvörðun um næstu skref.

Hér má kynna sér skýrsluna á vef Breiðdalshrepps.