Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bréfasendingum fækkar umfram spár

01.11.2018 - 07:53
ARN
 Mynd: Íslandspóstur
Það sem af er ári hefur bréfamagn sem fer um hendur Íslandspósts á grundvelli einkaréttar fyrirtækisins dregist saman um 14%. Áætlanir fyrirtækisins gerðu ráð fyrir 7% samdrætti. Þá benda nýjar tölur til þess að samdrátturinn nái yfir 20% í september og október. Ljóst er því að bréfasendingar hafa dregist mun meira saman en gert var ráð fyrir.

Frá þessu greinir Morgunblaðið.  Félagið segir samdráttinn meginorsök rekstrarvanda þess en í september síðastliðnum tilkynnti fjármála- og efnahagsráðuneytið að Íslandspósti hefði verið veitt 500 milljóna króna lán til tólf mánaða til að styrkja lausafjárstöðu félagsins.

Íslandspóstur sinnir alþjónustuskyldu fyrir ríkið og hefur á móti einkarétt á dreifingu af árituðum bréfum allt að 50 grömmum. Tekjur af þeim bréfum er ætlað að greiða fyrir þá alþjónustu sem stendur ekki undir sér. Þær tekjur duga ekki til í dag vegna samdráttar í bréfasendingum. Önnur þjónusta sem fyrirtækið veitir í samkeppni hefur heldur ekki dugað til að brúa bilið og því hefur saxast á eigið fé Íslandspósts. Með lánveitingunni vildi ríkið tryggja rímabundinn möguleika félagsins til að standa undir skyldum næstu mánuði og fyrirsjáanlegum taprekstri á yfirstandandi ári. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV