Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Brautryðjandi í miðlun íslenskrar myndlistar

Mynd: Þorvaldur Ágústsson - Safnah� / Safnahús Borgarfjarðar

Brautryðjandi í miðlun íslenskrar myndlistar

22.08.2017 - 15:35

Höfundar

Þess er minnst með ýmsum hætti þessi dægrin að í dag, 22. ágúst, eru hundrað ár liðin í dag frá fæðingu dr. Selmu Jónsdóttur sem var fyrsti safnstjóri Listasafns Íslands og jafnframt fyrsta konan sem varði doktorsritgerð við Háskóla Íslands. Í Víðsjá í dag er fjallað um Selmu og gripið niður í viðtal við hana frá 1968.

Mikilvæg í íslenskri listasögu

Selma Jónsdóttir (1917-1987) var brautryðjandi á sviði listfræði og safnastarfs hér á landi. Selma veitti Listasafni Íslands forstöðu frá árinu 1950 og þar til hún lést 1987. Hún byggði upp starfsemi safnsins af þrautseigju og alúð og vann að því að safnið fengi eigið húsnæði sem bar loks árangur um það leyti sem hún andaðist þegar safnið flutti í núverandi húsnæði við Fríkirkjuveg. 

Doktorsritgerð Selmu markaði tímamót í íslenskri listasögu.

Stórmerk rannsókn um miðaldalist

Árið 1960 varð Selma fyrst kvenna til að verja doktorsritgerð við Háskóla Íslands. Í sinni stórmerku ritgerð sýndi hún fram á að útskornar fjalir úr Flatatungu í Akrahreppi í Skagafirði hefðu upprunalega verið hluti af dómsdagsmynd í býsönskum stíl frá miðöldum. Það framlag færði fornan myndarf Íslendinga í nánara samhengi við evrópskan menningararf því að myndræn úrvinnsla á dómsdeginum, eins og frá honum er sagt í opinberunarbók Jóhannesar, má víða finna í evrópskri myndlist.

Portrett Nínu Tryggvadóttur af Selmu.

Minnst með ýmsum hætti

Í dag kl. 17 hefst í Listasafni Íslands dagskrá í minningu Selmu Jónsdóttur þar sem sýning um ævi hennar og störf verður opnuð í andyri safnsins.  Ásamt Listasafni Íslands taka nú fleiri aðilar höndum saman við að minnast Selmu, en það eru Kvennasögusafn Íslands, Landsbókasafn-Háskólabókasafn, Safnahús Borgarfjarðar og Þjóðminjasafn Íslands. Doktorsritgerð hennar er kjörgripur mánaðarins og stillt fram í Þjóðarbókhlöðu og Selmu er einnig minnst í heimabæ hennar Borgarnesi. Auk þessa blæs Listfræðafélag Íslands til ritgerðarsamkeppni til minningar um hana, nánari upplýsingar um þá keppni má finna inn á vefnum listfraedi.is.

Mynd: RÚV / RÚV
Viðtal við Selmu Jónsdóttur frá 1969.

Í Víðsjá á Rás 1 var gripið niður í þáttinn Dýrgripir í þjóðareign frá árinu 1968 þar sem Hjörtur Pálsson og Þóra Kristjánsdóttir gengu til fundar við forstöðumenn safna í þjóðareign og báðu þá að svara spurningunni: „Hvern teljið þér mestan dýrgrip í safni yðar og hvers vegna?“ Eins og góðum forstöðumanni sæmir var Selma skiljanlega ófús til að gera upp á milli barnanna sinna en tiltók þó nokkur dæmi um það sem henni þótti mikilvægt að benda til og sagði einnig sögu að því hve snúið það getur reynst að bæta erlendri myndlist við safneignina.

Innslagið má heyra í spilaranum hér fyrir ofan.