Braut lög með SMS-um og bréfum fyrir kosningar

07.02.2019 - 15:51
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Reykjavíkurborg, rannsakendur við Háskóla Íslands og Þjóðskrá brutu persónuverndarlög í aðdraganda sveitastjórnarkosninganna síðasta sumar. Þetta er niðurstaða Persónuverndar sem telur jafnframt ámælisvert að borgin hafi ekki veitt stofnuninni upplýsingar um alla þætti málsins eftir að hafa óskað sérstaklega eftir því.

Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar sem birtist á vef hennar í dag.  Úrskurðurinn er frá 31. janúar.

Átti auka kjörsókn í kosningum

Reykjavíkurborg óskaði eftir heimild Persónuverndar til að senda ungum kjósendum smáskilaboð og bréf fyrir kosningarnar í því skyni að auka kjörsókn. Skilaboðin áttu einnig að vera hluti af rannsókn Háskóla Íslands á því hvaða þættir hefðu áhrif á kjörsókn.  

Fram kom í frétt á ruv.is að borgin hefði fengið svar frá Persónuvernd um miðjan maí. Svarið hefði ekki verið afdráttarlaust en þó hefði komið fram að það væri undir þeim komið sem sendi skilaboðin að sjá til þess að það væri gert í samræmi við persónuverndarlög. Í fréttinni kom einnig fram að borgin ætlaði að senda bréf til kvenna 80 ára og eldri og erlendra ríkisborgara og hvetja þessa hópa til að kjósa. 

Borgin tekin til bæna

Og nú hefur Persónuvernd komist að þeirri niðurstöðu að þessar sendingar fyrir kosningar hafi ekki verið í samræmi við persónuverndarlög. 

Í úrskurðinum eru gerðar alvarlegar athugasemdir við framgöngu borgarinnar í málinu. Í bréfi sem Persónuvernd sendi borginni í júni á síðasta ári er til að mynda spurt af hverju Persónuvernd hafi aðeins verið upplýst um afmarkaðan þátt málsins og hvers vegna það hafi ítrekað gætt ósamræmis í svörum borgarinnar.  

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Oddvitar níu flokka á kjörstað í síðustu kosningum.

Borgin baðst afsökunar á þessu í svari sínu og sagði það ekki hafa verið ætlun sína að leyna neinu um það hvernig verkefnið yrði unnið. Þá var jafnframt beðist velvirðingar á því að ósamræmis hefði gætt í svörum . 

Persónuvernd virðist ekki taka þessi svör gild. Í niðurstöðu stofnunarinnar segir að ekki hafi komið fram fullnægjandi skýringar á því hvers vegna hún hafi ekki fengið allar upplýsingar sem óskað hafði verið eftir sérstaklega. Það sé alvarlegt að ábyrgðaraðili, sem vinni með persónuupplýsingar og sé auk þess stærsta sveitarfélag landsins, skuli láta undir höfuð leggjast að svara fyrirspurnum eftirlitsvalds.  Slíkt sé ámælisvert.

Gildishlaðin smáskilaboð og óþarfa bréf

Persónuvernd er líka nokkuð afdráttarlaus varðandi sms-skilaboðin og bréfin  sem send voru ungu fólki.  Hún segir að texti þeirra hafi verið gildishlaðin og í bréfum, þar sem rætt var um skyldu til að kjósa, hafi hann verið rangur. Hvergi sé minnst á kosningaskyldu í íslenskum lögum.  Þá segir Persónuvernd að bæði smáskilaboðin og bréfin hafi verið til þess fallin að hafa áhrif á hegðun unga fólksins í kosningunum.  Öll bréfin og skilaboðin hafi eingöngu verið merkt Reykjavíkurborg og því ekki gefið til kynna að einhverjir aðrir, eins og Háskóli Íslands, stæðu á bak við sendinguna. Uppruni þeirra og tilgangur hafi því ekki verið skýr. 

Persónuvernd segir að bréfin sem voru send til kvenna  80 ára og eldri og erlendra ríkisborgara hafi ekki einungis verið til upplýsinga og fræðslu heldur hafi þau einnig verið hvatning til að kjósa.  Persónuvernd telur engin rök standa til þess að upplýsa þurfi konur á þessum aldri um kosningarétt þeirra.  Þá geti það ekki samrýmst kröfum  að opinberir aðilar sendi tilteknum hópum kjósenda hvatningu um að nýta kosningarétt sinn í aðdraganda kosninga.   

Brutu persónuverndarlög

Persónuvernd kemst því að þeirri niðurstöðu að borgin og rannsakendur við Háskóla Íslands hafi ekki farið að lögum um persónuvernd þegar skilaboðin voru send ungum kjósendum.  Þá hafi borgin brotið persónuverndarlög þegar hún sendi konum yfir 80 ára og erlendum ríkisborgurum bréf.  ÞJóðskrá hafi sömuleiðis brotið persónuverndarlög þegar hún afhenti borginni upplýsingar um kyn og ríkisfang erlendra ríkisborgara.