Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Braust inn í tölvukerfi NASA með smátölvu

25.06.2019 - 00:49
epa04890874 A handout picture released by NASA on 20 August 2015 shows a low-angle self-portrait of NASA's Curiosity Mars rover  vehicle above the 'Buckskin' rock target, in the 'Marias Pass' area of lower Mount Sharp on Mars,
Könnunarfarið Curiosity á yfirborði Mars. Mynd: EPA - NASA/JPL-Caltech/MSSS
Tölvuþrjótur náði að brjóta sér leið inn í tölvukerfi NASA og stela þaðan viðkvæmum gögnum. Þrjóturinn notaði smátölvu sem nefnist Raspberry Pi og fæst fyrir nokkur þúsund krónur úr búð.

AFP fréttastofan segir árásina á tölvukerfi NASA hafa verið gerða í apríl í fyrra, en enginn hafi tekið eftir því í nærri ár. Rannsókn málsins stendur enn yfir og sökudólgurinn er ekki fundinn. Samkvæmt skýrslu NASA um málið tókst tölvuþrjótnum að sækja 23 skjöl sem voru samanlagt um 500 megabæt af stærð. Þeirra á meðal voru tvö skjöl um rannsóknarverkefni NASA á Mars sem varða Curiosity geimjeppann, og upplýsingar er varða reglur Bandaríkjanna um útflutning á varnarbúnaði og öðrum tæknibúnaði tengdum hernaði.

Mestar áhyggjur hafði NASA af því að þrjótnum, eða þrjótunum, hafði tekist að brjóta sér leið inn í tvö af þremur aðalnetkerfum fjarskiptakerfis NASA. Óttuðust starfsmenn stofnunarinnar að þrjótarnir gætu fundið leið til þess að öðlast aðgang að fjarskiptakerfinu og senda þannig hættuleg skilaboð til mannaðra geimflauga og geimstöðva sem nota kerfin. Því var brugðið á það ráð að aftengja fjarskiptakerfið tímabundið, segir í skýrslu NASA, og öryggi þess eflt.

Að sögn AFP fréttastofunnar eru Raspberry Pi tölvur yfirleitt notaðar til að tengja við sjónvörp heima fyrir. Þá eru þær mikið notaðar til að kenna börnum forritun og kynna þróunarríkjum tölvutækni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV