Brauðristin ?

Mynd með færslu
 Mynd:

Brauðristin ?

23.10.2013 - 16:21
Loftmengun er ekki bara að finna utandyra, við umferðaræðar eða á iðnaðarsvæðum, heldur einnig innandyra í híbýlum manna. Rannsóknir sýna að ýmsar athafnir á heimilum geta valdið mengun, þeirra á meðal það að rista brauð. Stefán Gíslason segir frá loftmengun innandyra í Sjónmáli í dag.

Sjónmál  miðvikudaginn 23. október 2013

--------------------------------------------------------------  

Pistill Stefáns

Inniloft

Loftmengun í borgum hefur verið talsvert í umræðunni síðustu daga í
framhaldi af birtingu sláandi talna um áhrif þessarar mengunar á heilsufar
íbúanna. En heilsufari þessara íbúa stafar ekki bara hætta af menguninni
utandyra. Mengunin innandyra gæti jafnvel verið enn skaðlegri, að minnsta kosti
ef marka má niðurstöður nýrrar rannsóknar sem sagt var frá í vísindatímaritinu
Environmental Science and Technology á dögunum.

Rannsókninni sem um ræðir var stjórnað af Gabriel Bekö, dósent við
verkfræðideild Tækniháskóla Danmerkur, sem m.a. hýsir alþjóðlegu húsvistar- og
orkumiðstöðina. Rannsóknin náði til 56 reyklausra heimila í Kaupmannahöfn, þar
sem mældur var fjöldi örfínna svifryksagna í inniloftinu og uppruni þeirra
greindur. Þá kom í ljós að loftmengun
utandyra átti aðeins fjórðungshlut í loftmenguninni innandyra. Þrír fjórðu
hlutar svifryksagnanna áttu sem sagt upptök sín inni á heimilinu. Hér er rétt
að ítreka að rannsóknin náði aðeins til reyklausra heimila, en vitað er að á heimilum
reykingamanna er að jafnaði miklu meira af svifryksögnum en á öðrum heimilum.

Gabriel Bekö og félagar mældu ekki aðeins fjölda svifryksagna, heldur báru þeir breytileikann
sem fram kom saman við athafnir heimilisfólks þá stundina. Eins og vænta má voru agnirnar flestar
þegar íbúar voru heimavið og vakandi, nánar tiltekið að meðaltali 22.300 stykki
í hverjum rúmsentimetra lofts. Minnst var svifrykið þegar enginn var heima eða
þegar allir voru sofandi, en þá voru agnirnar að meðaltali 5.100-6.100 í
hverjum rúmsentimetra. Mengunartopparnir komu fram á mismunandi tímum, en þó
aldrei á tímabilinu frá kl. 12 á miðnætti til kl. 6. að morgni.

Þegar rýnt var í athafnir heimilisfólks kom fram að þær réðu miklu,
ekki bara um fjölda heldur einnig fínleika agnanna. Einnig kom í ljós að fjöldi
agna hélst hár í nokkra klukkutíma eftir hverja mengandi athöfn, ef svo má að
orði komast. Þær athafnir sem reyndust
langmest mengandi af öllum voru kertabruni, eldamennska, bakstur og
brauðristun. Á þeim heimilum þar sem á annað borð tíðkaðist að kveikja á
kertum, voru kertin langstærsti mengunarvaldurinn, en frá þeim komu hátt í 60%
svifryksagnanna á háannatímum. Matargerð af ýmsu tagi átti sök á allt að 30% af
samanlagðri loftmengun innanhúss. Þetta átti þó ekki við þegar matur var
soðinn, því að mengunin jókst lítið sem ekkert við það.

Út frá niðurstöðum Gabriels Bekö og félaga má auðveldlega setja fram þrjú góð ráð til þeirra sem
vilja halda inniloftinu sem hreinustu. Í fyrsta lagi ætti fólk náttúrulega
aldrei að reykja – og þá sérstaklega ekki innandyra. Í öðru lagi ætti að fara
sparlega með kertin og í þriðja lagi ætti að lofta vel út á meðan á eldamennsku
stendur, sérstaklega þegar verið er að steikja, baka eða rista brauð.

Niðurstöður Gabriels Bekö um þátt kerta í mengun innilofts ættu svo sem ekki að koma á óvart. Fyrir
9 árum birtist t.d. grein í tímaritinu European Respiratory Journal þar sem sagt var frá
rannsóknum vísindamanna við háskólann í Maastricht í Hollandi á innilofti í
kirkjum. Þar kom í ljós að loftmengun í kirkjum getur verið meiri en meðfram
aðalvegum. Þessi rannsókn leiddi í ljós að styrkur krabbameinsvaldandi
fjölhringja kolvetna var marktækt hærri í sumum kirkjum en við umferðaræðar þar
sem 45.000 bílar eiga leið um á degi hverjum. Svifryksmengun í kirkjunum var
líka 20 sinnum hærri en evrópsk heilsuverndarmörk sögðu til um. Þarna bárust
böndin sömuleiðis að kertunum, enda tíðkast það víða í kirkjum í Evrópu að
kveikt sé á kertum allan daginn. Þar eru líka oft notuð reykelsi sem auka enn á
mengunina. Þessi mikla mengun eykur mjög hættu á öndunarfærasjúkdómum af ýmsu
tagi, svo sem astma og langvinnri berkjubólgu. Prestar og aðrir starfsmenn í
kirkjum eru þá eðlilega í meiri hættu en aðrir.

Fyrst minnst er á kerti er rétt að minna á að kerti er ekki það sama og
kerti. Í búðum fást nefnilega bæði kerti úr parafíni, sem er olíuafurð, og
kerti úr stearíni og öðrum efnum úr jurtaríkinu. Parafínkertin menga væntanlega
meira, enda er hitinn í kertaljósinu ekki nægur til að eyða nokkrum af
skaðlegustu olíuefnunum. Kannski gefst tilefni þegar nær dregur jólum til að
ræða hvernig best sé að velja kerti með tilliti til áhrifa þeirra á umhverfi og
heilsu, en einfaldasta ráðið er að kaupa alltaf Svansmerkt kerti. Þau innihalda
aldrei parafín og eru auk þess laus við ilmefni, sem líka geta haft mikil
neikvæð áhrif á heilnæmi inniloftsins. Ilmefni í daglegu lífi og heimilishaldi
eru annars meira en nóg umræðuefni fyrir heilan útvarpspistil og verða ekki
rædd frekar hér. Svo væri hægt að skrifa enn einn pistilinn um formalín og
leysiefni í byggingarefni innandyra. Listinn yfir þau efni sem spillt geta
inniloftinu er nefnilega ekki mjög stuttur.

Þau okkar sem komin eru á miðjan aldur muna sum þá tíð þegar rafljós
voru ekki sjálfsögð og steinolíulampar voru helstu ljósgjafarnir. Sá tími er
sem betur fer löngu liðinn hérlendis, en olíulamparnir eiga enn stóran þátt í
mengun innilofts í þróunarlöndunum. Enn nota 20-25% mannkynsins steinolíulampa
í talsverðum mæli með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á heilsuna. Sérfræðingar á
vegum Alþjóðabankans hafa áætlað að það að anda að sér steinolíureyk að
staðaldri jafnist á við að reykja tvo pakka af sígarettum á dag, enda eiga
reykingar þátt í aðeins þriðjungi lungnakrabbameinstilfella meðal kvenna í
þróunarlöndunum. Hin tilfellin má rekja til steinolíulampanna og reyndar líka
til annarrar brennslu innandyra á misgóðu eldsneyti í misgóðum ofnum og
eldstæðum. En þetta gerist náttúrulega bara í útlöndum. Ef við hugsum eingöngu um
heilsu okkar sjálfra og okkar nánustu, þá er líklega nærtækast, eins og áður segir,
að fara sparlega með kertin, velja rétt kerti og gæta sín við eldamennskuna. Nú og ef eitthvað fer úrskeiðis í
eldamennskunni þannig að við missum svifryksmengunina upp úr öllu valdi, þá er
bara að bregða sér út á næstu umferðargötu og bíða eftir því að mesta mengunin
inni á heimilinu líði hjá.