Brátt von á 400 milljónum vegna Panamagagna

12.05.2017 - 16:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kröfur vegna endurálagningar á grundvelli Panamagagnanna eru nú orðnar umtalsvert hærri en kostnaðurinn við kaupin á gögnunum. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn á Alþingi sem birt var í dag. Skattrannsóknarstjóri keypti í fyrra gögn um eignir Íslendinga í skattaskjólum, fyrir 37 milljónir króna en alls hefur ríkisskattstjóri krafið fjóra einstaklinga um samtals 82 milljónir króna.

Í svarinu segir að gera megi ráð fyrir því að á næstu mánuðum muni ríkisskattstjóri krefjast þrefalt hærri upphæðar í þeim málum sem langt eru komin í rannsókn. Þá er þess getið að eftir að úrvinnsla Panamaskjalanna hófst hafi borist sex skatterindi þar sem einstaklingar, ýmist persónulega eða vegna félaga á þeirra vegum, hafi óskað eftir endurupptöku á áður innsendum skattframtölum. Um sé að ræða fjármuni eða fjármagnstekjur erlendis sem áður hafði ekki verið gerð grein fyrir á framtölum. Hækkun á skatti vegna þessa hefur nú þegar numið rúmum tæpum 70 milljónum. Enn eru óafgreidd sjö álíka skattaerindi til viðbótar. Samtals nema kröfur vegna mála þar sem rannsókn er lokið eða langt komið því á fimmta hundruð milljóna.

Alls koma 349 Íslendingar og 61 aflandsfélaga með íslenska kennitölu fyrir í gögnum skattrannsóknarstjóra. 34 mál hafa verið tekin til formlegrar rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra. Af þeim málum er tekin hafa verið til rannsóknar er rannsókn lokið í þremur málum. Tveimur af þeim hefur verið vísað til héraðssaksóknara en ákvörðun hefur verið tekin um að gera kröfu um sekt hjá yfirskattanefnd í þriðja málinu. Rannsóknir í sjö málum eru á lokastigi.
 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi