Bragðast best með íslensku smjöri

Mynd með færslu
 Mynd:

Bragðast best með íslensku smjöri

16.07.2013 - 19:26
Fyrsta uppskera kartöflubænda í Þykkvabæ kemur í búðir á morgun. Bændur segja sprettu hafa verið hæga vegna kuldatíðar í vor.

Neytendur eru orðnir langeygir eftir nýjum kartöflum, enda er uppskeran í ár töluvert seinna á ferð en í fyrra. Bændur hafa verið að taka upp kartöflur einn af öðrum en núna er stærsti kartöfluframleiðandinn kominn á skrið. 
Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna segir áfangann fagnaðarefni. „Það er stór dagur hjá okkur. Nú eru kartöflurnar að byrja að streyma úr Þykkvabænum á markaðinn. Ef einhver var í vafa þá getum við bara sagt það strax: Nú er komið sumar,“ segir hann.

Að hans sögn var sprettan sæmileg. „Hún fór mjög hægt af stað, það voru kuldar. Menn dönsuðu hér rigningardans í allt fyrra sumar og reyndu að kalla á rigningu. Þá var bara sól. Núna fóru menn eitthvað offari, því að núna var bara rigning og engin sól. Nú var eitthvað sólarsamba. Það er spurning hvernig næsta ár verður,“ segir Gunnlaugur.

Tegundin sem kemur í búðir á morgun kallast Premier, en það er fljótsprottin tegund. Eftir um 10 daga kemur gullauga á markað og loks rauðar kartöflur. Premier tegundin geymist ekki vel og þarf litla suðu, ekki nema um 10-15 mínútur. „Síðan er bara að salta aðeins og taka vatnið strax úr pottinum þegar búið er að sjóða. Þá bragðast þær best, með íslensku smjöri náttúrlega,“ segir Gunnlaugur.