Bræður tveir í hefndarhug

Mynd: Úlfur Úlfur / YouTube

Bræður tveir í hefndarhug

02.06.2017 - 14:47

Höfundar

Hefnið okkar er þriðja plata Úlfs Úlfs og kemur í kjölfar hinnar vinsælu Tvær plánetur. Hefnið okkar er um margt straumlínulagaðra og dekkra verk og þeir félagar, Arnar og Helgi, deila hljóðnemanum bróðurlega á milli sín. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

Úlfur Úlfur reis upp úr ösku rokksveitarinnar Bróður Svartúlfs sem vann Músíktilraunir árið 2009 og rakti rætur sínar til Sauðárkróks. Fyrsta breiðskífan, Föstudagurinn langi, kom út 2011 en það var ekki mikið þar sem gaf til kynna það risastökk sem sveitin átti eftir að taka fjórum árum síðar á plötunni Tvær plánetur. Þá sátu Úlfur Úlfur – ásamt fleirum – á toppi annarrar bylgju hins íslenska rapps og hafa verið ein helsta mektarsveitin í þeirri senu undanfarin ár.

Litaspjald

Tvær plánetur er mikilúðlegt verk og metnaðarfullt, litaspjaldið stórt og fjölskrúðugt þar sem ægði saman alls kyns litum og útkoman fjölbreytt og hugmyndaríkt verk. Taktsmiðurinn Helgi Sæmundur lét vaða, reyndi sig við hitt og þetta og í forvíginu var rapparinn Arnar Freyr, með stíl sem á engan sinn líka í íslensku rappi.

Hefnið okkar er um margt strípaðra verk og hljóðmyndin er heilsteyptari. Hún er um leið mun persónulegri, textalega, og stóru málin að mestu látin liggja milli hluta. Á Tveimur plánetum léku þeir félagar sér að því að rýna í hversdaginn en hér horfa þeir mun meira inn á við og velta m.a. fyrir sér tilvistarrétti sveitarinnar, sögu sinni og þróun. Pláneturnar tvær einkenndust þá oft af dimmri og draugalegri hljóðmynd og er hnykkt á því hér ef eitthvað er.

Í „15“ segir Helgi Sæmundur: „Langir dagar, langar nætur / Við erum alltaf að /„Old guns“ í dag en enn að fokka í hausnum ykkar“. Þeir félagar eru stoltir af því sem þeir hafa áorkað og mega vel vera það: „Ég og Arnar hnarrreistir á götum Reykjavíkur / Engir „suckas“ segja mér að ég sé ekki „real“ / Ég hef unnið fyrir hverri krónu allt mitt „fokking“ líf“. Nefndur Arnar kemur síðan sterkur inn í „Ofurmenni“ og þessi magnaði stíll hans fær að njóta sín þar, sérstaklega hraðrappið þar sem c.a. 230 orðum er þjappað inn í 30 sekúndur eða svo.  

Bestar eru samt tilraunakenndustu smíðarnar sem eru um leið þær einföldustu og lágstemmdustu. „MUA“ keyrir á hryssingslegu, „industrial“-kenndu hljóði og hvassri taktvinnu. Myrk stemma sem gengur vel upp. „Tempo“ er ekki ósvipað, aftur er dimmt yfir og innilokunarkennd læsir klónum um hlustandann. Þessi lög tvö fara undir skinnið á manni.

Heimsendalegt

Hefnið okkar er um margt nokkuð heimsendaleg og í plötuspjalli við Grapevine ýja þeir félagar að því að þetta gæti hugsanlega orðið þeirra síðasta verk, tímabært sé að koma kyndlinum áfram. Titilinn Hefnið okkar má þá túlka út frá þessu og það er eitthvað fallegt við það hvernig þessir æskuvinir og „bræður“ skipta rappinu á milli sín, mun meira en á síðasta verki. Þetta er rómantísk mynd sem maður hefur fyrir framan sig; sveitapiltarnir sem fluttu ekki bara á mölina heldur sigruðu hana líka. Og hvað sem líður endastöðvarvangaveltum þeirra félaga eru þeir á giska öruggri siglingu hér.

Tengdar fréttir

Tónlist

Fjarrænt, fumlaust og feykisvalt

Tónlist

Flæðir áfram, líkt og fallegt fljót

Tónlist

Aron fer upp á við en angistin læsir klónum

Tónlist

Úlfur Úlfur er „grínið og myrkrið“