Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Bræður mannsins sem lést í haldi lögreglu

31.03.2018 - 16:12
Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Tveir bræður mannsins, sem fannst látinn á bæ í uppsveitum Árnessýslu í morgun, eru í haldi lögreglu. Skýrslutökur hafa staðið yfir þeim í dag og er þeim skýrslutökum ekki lokið, segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn. Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er of snemmt að segja til um hvort andlát mannsins hafi borið að með saknæmum hætti en ummerki voru um átök á vettvangi. Fram kemur á vef lögreglunnar að dánarorsök liggi ekki fyrir en réttarkrufning verður gerð strax eftir helgi til að leiða hana í ljós. 

Sérfræðingar á vegum tæknideildar lögreglu eru nú að ljúka störfum en almennir lögreglumenn og rannsóknarlögreglumenn gæta þess að koma ekki nálægt vettvangi á meðan tæknideildin vinnur sína vinnu til að spilla ekki mögulegum sönnunargögnum.

Tilkynning um andlát mannsins barst lögreglu skömmu fyrir níu í morgun. Ábúandinn á bænum tilkynnti þá að bróðir hans væri látinn. Sjúkralið og lögregla fór á vettvang, bærinn var girtur af og bræðurnir tveir handteknir vegna rannsóknar á andláti bróður þeirra. 

Lögreglan hefur heimild til að halda þeim í sólarhring áður en ákvörðun um gæsluvarðhald verður tekin.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV