Bræðslumenn samþykkja verkfall

08.02.2011 - 08:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Starfsmenn í tveimur loðnubræðslum í Vestmannaeyjum samþykktu að hefja verkfall eftir viku, um það leyti sem loðnuvertíðin nær hámarki. Atkvæði bræðslumanna af Austurlandi verða talin fyrir hádegi.

Starfsmenn í átta loðnubræðslum á svæðinu frá Vopnafirði til Vestmannaeyja greiddu atkvæði í gær um verkfallsboðun. Atkvæði félagsmanna í bræðslum Ísfélagsins og Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum voru talin í gær og verkfall samþykkt þar með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.

Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri Afls Starfsgreinafélags, segir niðurstöðuna ekki koma á óvart. Hann býst við að úrslitin verði svipuð í bræðslunum á Austurlandi en atkvæðin verða talin fyrir hádegi.

„Við byrjum á því á morgun að koma atkvæðum öllum á sama stað. Við munum hittast á Djúpavogi með atkvæðakassa frá norðursvæðinu og frá Hornafirði. Ég á von á að það taki ekki langan tíma að telja,“ segir Sverrir Mar.

Samþykki félagsmenn verkfall hefst það á þriðjudaginn, eftir viku. Það yrði ótímabundið og myndi því hafa áhrif á loðnuvertíð sem er við það að ná hámarki. Þannig gætu fjárhagsleg áhrif verkfalls orðið mikil. Sverrir segist ekkert hafa heyrt í viðsemjendum sínum, samtökum atvinnulífsins.

„Við höfum ekkert heyrt frá því á sunnudag, en við erum, eins og við vorum á sunnudag, í sáttahug. Ég segi ekki að við bíðum við símann en hann er aldrei langt undan.“


Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi