Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Bráðnun jökla eykur landris og eldvirkni

23.07.2013 - 11:49
Smoke billows from an erupting volcano by the Eyjafjallajokull glacier on April 14, 2010 near Reykjavík. Iceland's second volcano eruption in less than a month melted part of a glacier and caused heavy flooding yesterday, forcing up to 800 people to
 Mynd:
Bráðnun jökla hér á landi þýðir að landið rís og eldvirkni mun aukast. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar á samspili jökulbráðnunar og kvikuframleiðslu undir jarðskorpunni.

Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar á áhrifum þess að jöklar hér á landi eru hægt og bítandi að minnka. Niðurstöðurnar koma fram í grein sem bíður birtingar í tímaritinu Journal of Geophysical Research. Einn höfundanna er Þóra Árnadóttir, sérfræðingur á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Hlýnandi loftslag hér á landi hefur til að mynda haft þær afleiðingar að frá 1890 hefur rúmmál Vatnajökuls minnkað um fjögur hundruð þrjátíu og fimm rúmkílómetra - sem er næstum þrisvar sinnum rúmmál Mýrdalsjökuls. Aðrir jöklar hér á landi minnka einnig hröðum skrefum.

Þetta hefur þau áhrif að þrýstingur á jarðskorpuna minnkar og þar með verður til meiri kvika á miklu dýpi, í möttlinum, sem leitar til yfirborðs - aðstæðurnar á Íslandi hjálpa einnig til, því landið er á flekaskilum og mikil eldvirkni er fyrir.

Samkvæmt niðurstöðum þessarar greinar verður aukningin á kvikustreymi mest í jarðskorpunni undir Vatnajökli, þar sem talið er að miðja möttulstróksins, eða heita reitsins, sé staðsett; í Vatnajökli eru líka virkustu eldstöðvar landsins.

Þessi aukning á kvikuframleiðslu undir landinu gæti orðið um núll komma tveir rúmkílómetrar á ári. Kæmi fjórðungur þess efnis upp á yfirborðið myndi það jafngilda - að rúmmáli - því að sjöunda hvert ár yrði gos í Eyjafjallajökli, jafnstórt því sem varð árið 2010.