Boston og Golden State byrja vel

epa07535478 Golden State Warriors forward Kevin Durant (R) blocks a shot by Houston Rockets guard James Harden (L) during the second half of the NBA Western Conference Playoffs semifinal game one at Oracle Arena in Oakland, California, USA, 28 April 2019.  EPA-EFE/JEFF CHIU / POOL  SHUTTERSTOCK OUT
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL

Boston og Golden State byrja vel

29.04.2019 - 01:54
Boston Celtics og Golden State Warriors hófu aðra umferð úrslitakeppni NBA deildarinnar með sigri í kvöld. Boston Celtics gerði sér lítið fyrir og vann Milwaukee Bucks á útivelli í undanúrslitaeinvígi liðanna í Austurdeildinni með 112 stigum gegn 90. En meistarar Golden State mörðu heimasigur gegn Houston Rockets, 104-100. Vinna þarf fjóra leiki til að komast áfram í undanúrslit NBA deildarinnar.

Gestirnir frá Boston voru með yfirhöndina í Milwaukee framan af, en aðeins munaði tveimur stigum á liðunum í hálfleik. Í byrjun síðari hálfleiks virtist leikur liðanna ætla að vera jafn og spennandi, en þá settu gestirnir í fluggír og stungu heimamenn af. Þeir náðu mest 26 stiga forystu seint í leiknum. Kyrie Irving skoraði 26 stig fyrir Boston og gaf 11 stoðsendingar. Al Horford skoraði 20 stig og tók 11 fráköst. Í liði heimamanna var Giannis Antetokounmpo atkvæðamestur með 22 stig, og á eftir honum kom Khris Middleton með 16 stig og 10 fráköst.

Mun jafnara var á með Golden State og Houston á vesturströndinni. Heimamenn byrjuðu leikinn betur og náðu níu stiga forystu í fyrsta leikhluta, en gestirnir náðu að jafna metin fyrir hálfleik. Þeir komust svo yfir í byrjun síðari hálfleiks, en Golden State seig framúr og hélt naumri forystu allt til leiksloka. Kevin Durant var stigahæstur heimamanna með 35 stig, en hann skoraði aðeins eina þriggja stiga körfu. Stephen Curry skoraði 18 stig. Golden State átti aðeins 22 þriggja stiga tilraunir í leiknum, en liðið hefur að meðaltali reynt að skot fyrir utan þriggja stiga línuna minnst 34 sinnum í leik. James Harden skoraði 35 stig fyrir Houston og Eric Gordon skoraði 27.