Bosnía væri fýsilegri kostur en Ísland

Mynd: Anton Brink / Ruv.is

Bosnía væri fýsilegri kostur en Ísland

11.03.2017 - 13:29

Höfundar

Samkvæmt reiknivél Velferðarráðuneytisins eru hjónin Sirrý og Bjarki fátæk. Þau búa í Sandgerði og leigja. Sirrý vinnur í Leifstöð en Bjarki við smíðar. Það kemur þeim á óvart að þau séu fátæk en þetta er samt óttalegt basl.

Rithöfundurinn Mikael Torfason hefur eytt síðustu átta mánuðum í að taka viðtöl við fátækt fólk og líka fólk sem er við fátækrarmörk.

Hvernig nær einstætt foreldri á kennaralaunum endum saman á Íslandi? Samkvæmt útreikningum Velferðarráðuneytisins er það eiginlega ekki hægt. Í útvarpsþáttunum Fátækt fólk veltir Mikael líka upp spurningunni um hvaða sögur umberum við af fátæku fólki. Hversu fordómafull erum við gagnvart fátækum? Eiga fátækir að skammast sín? Er skömm að vera fátækur?

Ekkert má út af bregða

Bjarki Týr Gylfason og Sigríður Reynisdóttir lifa á milli launaseðla, „ekkert má út af bregða,“ segir Bjarki. Hann er samt ekki sannfærður um útreikning Velferðarráðuneytisins, sem afgreiðir þau sem fátækt fólk. „Það væri gott að hafa meira á milli handanna, og vera ekki alltaf að drepast úr áhyggjum og stressi, en ég sé mig ekkert sem fátækan.“

Bjarki er greindur með geðhvarfasýki og þarf að taka lyf við því. „Stundum þarf maður að sleppa þeim, þetta er ansi stór biti. Startið á nýju lyfjatímabili er einhver 50-60 þúsund kall.“ Hann hefur einnig lengi neitað sér um að fara til tannlæknis. Honum telst til að hann sé með átta eða níu brotnar tennur eftir að endajaxlar hófu að koma niður og þrýstu tanngarðinum saman.

Væru á götunni ef þau ættu ekki góða að

Það hefur hvarflað að þeim að yfirgefa landið, flytja til Danmerkur eða Svíþjóðar. „Leigumarkaðurinn eins og hann er, ef þú missir húsnæðið sem þú ert í, þá ertu bara á götunni. Ef við hefðum ekki tengslanet og þetta æðislega fólk í kringum okkur, þá værum við á götunni,“ segir Sirrý.

„Grínlaust, þá mundum við sem fjölskylda, hafa það betur í Bosníu en hér,“ segir Bjarki. „Ég held að við myndum hafa það betur alls staðar heldur en á Íslandi,“ bætir Sirrý við.

Bjarki finnur samt ekki til beiskju, þrátt fyrir baslið. „Ég get ekki sagt það. Ég er náttúrulega þannig veikur að hausinn á mér aktíft að reyna að drepa mig á hverjum degi. Þannig að hver dagur sem ég er lifandi, líður vel og er með fjölskyldunni og börnum, er bara gjöf. Þannig að ég get ekki sagt að ég finni til beiskju. Ég bara má það ekki. Ég leyfi mér það ekki.“

Fyrsti þáttur Fátæks fólks, í umsjón Mikaels Torfasonar, var fluttur á Rás 1 í dag. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild í Sarpinum.