Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Börnum mismunað í íslenskum skólum

Mynd með færslu
 Mynd:

Börnum mismunað í íslenskum skólum

13.04.2014 - 13:45
Það er augljóst að börnum er mismunað í íslenskum skólum segir Renata Pesková formaður félags tvityngdra. Sumir nemendur fá að læra móðurmál sitt í stað dönsku en aðrir ekki. Mikill skortur er á upplýsingum um tvityngi á Íslandi.

Cheila Vanessa Santos 16 ára stúlka frá Portúgal óskaði eftir því að fá að læra móðurmál sitt portúgölsku í stað dönsku. Hún hafði frétt af því að nemendur frá Noregi og Póllandi hafi fengið að sleppa dönsku og læra norsku og pólsku í staðin og vildi fá að gera það líka. Beiðninni var synjað og henni sagt að hún yrði að læra dönsku.  

Renata segir að engin regla sé til um það hverjir mega læra móðurmálið í stað dönskunnar og hverjir ekki. Í aðalnámskrá segi að hægt sé að veita undanþágu og viðurkenna móðurmálskennslu en ekki tekið fram neitt frekar um forsendur kennslunnar eða skilyrði sem kennarar eigi að uppfylla. Þrjú tungumál séu kennd í tungumálaveri Laugalækjarskóla. Börn frá Svíþjóð, Noregi og Póllandi geti lært móðurmál sín þar annað hvort í fjarnámi eða staðnámi. Móðurmál þeirra séu viðurkennd og þau fái viðurkenningarskjal að loknu námi. „Ég  held að það sé engin gild ástæða fyrir því nema sú að hefðin er að Norðurlöndin vinna saman og pólska bættist við af því hópurinn er svo stór." 

Er þá verið að mismuna börnum eftir því hvaðan þau koma?  „Mér finnst alveg augljóst að það er verið að mismuna börnunum það er staðreynd en það er ekki af því að fólk vill ekki gera betur það er af því að forsendur eru ekki ennþá til staðar sem myndi tryggja aðra móðurmálskennslu líka." 

Dæmi eru um að börnum af erlendum uppruna sé bannað að tala saman á móðurmáli sínu í skólum hér á landi og hafi verið bannað að koma með bækur á móðurmálinu í frjálsa tíma í skólanum. Rentata kannast við slík dæmi og veit líka um leikskóla þar sem þetta hefur verið bannað. „Þetta er ekki illa meint. Ég held að það sé bara gríðarlegur skortur á upplýsingum. Fólk er ekki upplýst og skilur ekki þetta málefni nógu vel."    

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Vildi frekar læra portúgölsku en dönsku