Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Börnin fái vikulega hvíld frá Vatnsnesvegi

13.12.2018 - 12:19
Mynd með færslu
Skólabíll á akstri um Vatnsnes 8. nóvember 2018 Mynd: Húnaþing vestra
Foreldrar á Vatnsnesi vilja fá að kenna börnum sínum heima vegna ástandsins á Vatnsnesvegi. Grunnskólabörnum líður illa að hossast í skólabíl á ónýtum veginum tvo tíma á dag. Sveitarstjórn samþykkir ekki formlega heimakennslu, en gerir ekki athugasemdir við að börnin séu heima einu sinni í viku.

Malarvegurinn fyrir Vatnsnes er holóttur og hefur ástandið hríðversnað með aukinni umferð. Bílar skemmast og mikið álag er á börnum í skólaakstri. Íbúar í Húnaþingi vestra hafa ítrekað kallað eftir endurbótum. Nú síðast lagði skólastjóri í grunnskólanum á Hvammstanga fram erindi á byggðaráðsfundi, fyrir hönd foreldra á Þorgrímsstöðum og Saurbæ á Vatnsnesi, um heimakennslu gegn greiðslu. Morgunblaðið greindi fyrst frá. 

Ógleði, uppköst og mikill hávaði

Þorbjörg Inga Ásbjarnardóttir, á Þorgrímsstöðum, segir að börnin hennar þrjú séu í skólabíl tvo tíma á dag og ferðatíminn hafi aukist um 20 mínútur á dag vegna ástandsins. „Þannig að við fórum bara fram á þá heimild að hafa leyfi fyrir heimadegi fyrir þau einn dag í viku bara til þess að hlífa þeim. Þau eru náttúrulega ofboðslega þreytt á þessu, og þreytt þegar þau koma heim sérstaklega. Og svo hafa þau verið að kasta upp í bílnum,“ segir Þorbjörg. Auk þess sem hávaði í bílnum hafi mælst yfir hættumörkum á löngum kafla þegar hann skröltir yfir holurnar.  

Hafna heimakennslu en leyfa heimadaga

Byggðaráð tekur undir áhyggjur foreldra en hafnar beiðni um heimakennslu gegn greiðslu með vísan til reglugerðar. „En mér finnst vanta kannski svar samt almennilega við því að hafa heimild til heimadags, burtséð frá þessari greiðslu,“ segir Þorbjörg. 

Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri, segir í samtali við fréttastofu að ströng skilyrði séu fyrir heimakennslu, til dæmis um menntun foreldra, og því hafi þurft að hafna erindinu. Sveitarstjórn fjallar þó um málið í dag og ætlar ekki að gera athugasemdir við að börn séu höfð heima einu sinni í viku, í samráði við skólastjórnendur, á meðan vegurinn er óviðunandi. 

Hrædd um að lítið gerist á næstunni

Íbúafundur var nýverið haldinn með samgönguráðherra. Þorbjörg segir að fundurinn hafi verið ágætur, en þó ekki til þess að auka trú á að nýr vegur komi í bráð. Þrátt fyrir að allir sýni ástandinu skilning virðist vegurinn ekki vera í forgangi. „Mér finnst að ef vegabætur verða hérna, og það sem verður gert við Vatnsnesveginn, það eigi að snúa að þeim stöðum þar sem börn eru að keyra daglega í skóla og hafa ekkert val,“ segir Þorbjörg.

Hún segist þó hrædd um að ef ráðist verði í endurbætur, þá verði það einungis á þeim parti þar sem flestir ferðamenn keyra. „Til dæmis að Hvítserk frá þjóðvegi, af því að það virðist verið taka þau svæði þar sem ferðamenn eru, en ég vorkenni þeim ekkert að keyra. Það er val hjá þeim hvort þeir fara þarna einu sinni á ævinni,“ segir Þorbjörg.  Börnin hafi hins vegar ekkert val og hún efast um að nýr vegur verði kominn áður en börnin hennar klára grunnskólann. „En það eru lítil börn hérna á svæðinu, ekki orðin eins árs, og auðvitað er þetta brýnt, þau eiga eftir alla sína skólagöngu, og bara fyrir alla,“ segir Þorbjörg.