Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Börn tína baunir fyrir Starbucks og Nespresso

02.03.2020 - 04:19
epa00848223 Two men enjoy their coffees at a Starbucks coffee shop in Shanghai, China on Wednesday 25th October 2006.  As the Chinese government has eased ownership restrictions to allow foreign retailers to operate in China without first establishing
 Mynd: EPA
Börn eru notuð sem vinnuafl á kaffibaunaökrum í Gvatemala. Kaffihúsakeðjan Starbucks er meðal kaupenda bauna frá ökrunum, sem og Nestle sem notar baunirnar í Nespresso kaffi sitt.

Í fréttaþættinum Dispatches á Channel 4 í Bretlandi í kvöld verða birt myndskeið frá ökrunum, þar sem börn undir 13 ára aldri eru látin vinna fyrir lúsarlaun í 40 klukkustundir á viku við ömurlegar aðstæður. 

Að sögn starfsliðs Dispatches vinna börnin allt að átta tíma á dag, sex daga vikunnar. Sum þeirra litu ekki út fyrir að vera eldri en átta ára. Þau fá greitt fyrir þyngd baunanna, og eru laun þeirra yfirleitt innan við jafnvirði um 800 króna á dag. Stundum er tímakaupið ekki nema um 50 krónur. Í rannsókn sinni fóru starfsmenn Dispatches á sjö akra sem selja baunir til Nespresso og fimm sem selja til Starbucks. Börn voru notuð sem vinnuafl á þeim öllum.

Fyrirtækin segjast bæði vera með harða stefnu gegn barnaþrælkun. Bæði segjast þau ætla að rannsaka hvaða akrar eiga í hlut og hætti viðskiptum við þá ef ásakanirnar reynast réttar. Guardian hefur eftir Starbucks að rannsókn þeirra hafi sýnt fram á að fyrirtækið hafi ekki keypt kaffi af þessum ökrum eftir síðasta uppskerutímabil. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV