Börn og konur í mikilli hættu

28.02.2017 - 11:40
Mynd með færslu
Flóttamönnum bjargað á Miðjarðarhafi Mynd: EPA - ANSA
Leið flóttamanna frá Norður Afríku yfir Miðjarðarhafið til Evrópu er ein sú hættulegasta í heimi fyrir konur og börn, samkvæmt nýrri skýrslu sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna birti í dag. Helmingur þeirra sem rætt var við í skýrslunni segist hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun á leiðinni frá heimahögum sínum í Afríku í leit að betra lífi í Evrópu. Næstum 26 þúsund börn fóru fylgdarlaus yfir Miðjarðarhafið í fyrra; helmingi fleiri en árið 2015.

Í skýrslu UNICEF kemur fram að þrjú af hverjum fjórum börnum sem rætt var við, höfðu á einhverjum tímapunkti orðið fyrir ofbeldi, áreitni eða yfirgangi af hálfu fullorðinna. Helmingur kvennanna og barnanna sögðust hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun á leiðinni, í mörgum tilfellum oft og á mismunandi stöðum. 

Afshan Khan, svæðisstjóri UNICEF sem samhæfir aðgerðir samtakanna í flóttamannamálum í Evrópu segir í skýrslunni að leiðin yfir Miðjarðarhaf frá Norður-Afríku til Evrópu sé meðal hættulegustu og mannskæðustu leiða flóttamanna í heiminum, og sú hættulegasta fyrir konur og börn. 

„Leiðinni er aðallega stjórnað af smyglurum, þeim sem stunda mansal og öðrum sem nýta sér neyð örvæntingarfullra barna og kvenna sem eru einfaldlega að leita hælis eða betra lífs. Við þurfum örugga og löglega leið, sem og öryggisráðstafanir til að vernda börn á flótta, tryggja öryggi þeirra og halda þeim í burtu sem ætla sér að níðast á þeim,“ segir Khan í skýrslu UNICEF.

Í nýlegri könnun sem gerð var á högum barna flóttafólks og kvenna í Líbíu árið 2016 kom fram að fjöldi fólks á flótta var 256.000. Þar af voru um 30.000 konur og um 23.000 börn. Raunverulegar tölur eru hins vegar taldar vera að minnsta kosti þrisvar sinnum hærri, segir í skýrslu UNICEF. 

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að nauðsynlegt sé að verja börn á flótta og faraldsfæti, sérstaklega fylgdarlaus börn; hætta þurfi að hneppa þau í varðhald, haldi þurfi fjölskyldum saman, því það sé sterkasta vopnið til að tryggja öryggi barna, og vinna þurfi gegn útlendingahatri, mismunun og jaðarsetningu minnihlutahópa. 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi