Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Börn, millilandaflug og styttri vinnuvika

Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Bæjarstjórn Akureyrar ætlar að auglýsa eftir nýjum bæjarstjóra. Framsóknarflokkurinn heldur formennsku í bæjarráði og L-listi forseta bæjarstjórnar. Farið verður í tilraunaverkefni um styttingu vinnuviku og bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla brúað.

Dagvistunarmál, stytting vinnuviku og millilandaflug

Oddvitar meirihluta Framsóknarflokks, L-lista og Samfylkingar í nýrri bæjarstjórn Akureyrar undirrituðu málefnasamning í Hofi nú fyrir hádegi. Efst á baugi eru dagvistunarmál, bætt starfsskilyrði í leik- og grunnskólum og aukið vægi íbúasamráðs. Farið verður í tilraunaverkefni um styttingu vinnuviku og styttingu samfellds vinnudags yngri grunnskólabarna, eins og það er orðað. Þá verður lögð áhersla á beint millilandaflug frá Akureyri. 

Guðmundur Baldvin áfram formaður bæjarráðs

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokks, verður áfram formaður bæjarráðs. Framsóknarflokkur heldur formennsku í skipulagsráði og fær einnig fræðsluráð, sem áður var hjá Samfylkingu. L-listinn verður áfram með forseta bæjarstjórnar og tekur Halla Björk Reynisdóttir oddviti við því embætti. Listinn verður áfram með formennsku í frístundaráði og tekur við formennsku í umhverfis- og mannvirkjaráði. Samfylkingin heldur sinni formennsku í velferðarráði og stjórn Akureyrarstofu, og verður Hilda Jana Gísladóttir oddviti formaður hennar.

Breyttar áherslur og nýtt fólk

Þetta er sami meirihluti og á síðasta kjörtímabili og nánast sama pólitíska nefndarskipan. Halla Björk, nýr forseti bæjarstjórnar, segir að áherslurnar séu ekki þær sömu og fyrir fjórum árum. 

„Og nýtt fólk inn á milli. Þannig að við erum að fara í önnur verkefni. Staðan er önnur hjá bænum og svo framvegis,” segir Halla.

Geta tekist á og gefið fimmu  

Nú á allra síðustu dögum náði meirihlutinn saman um að auglýsa stöðu nýs bæjarstjóra á Akureyri. Hilda Jana segir það ánægjulegt og að málefnavinnan hafi gengið vel. 

„Það var auðvitað ýmislegt sem var tekist á um. En við eigum eftir að geta unnið dálítið vel saman. Við getum tekist á og svo gefið hvort öðru fimmu þegar allt er komið saman,” segir Hilda Jana. 

Bæta líðan barna og þjónustu við aldraða

Meirihlutinn ætlar að leggja áherslu á félagslegt réttlæti og mannréttindi. Haldið verður áfram að virkja íbúa til lýðræðislegrar þátttöku og auka vægi íbúasamráðs. „Sérstök áhersla verður lögð á leiðir sem geta bætt líðan barna og ungmenna ekki síst með snemmtækri íhlutun og aðgengi að sérfræðiþjónustu innan veggja leik- og grunnskóla. Unnið verður að því að bæta þjónustu við aldraða og gera hana sveigjanlegri,” segir í tilkynningu frá meirihlutanum.