Börn með sama eignarétt og fullorðnir

21.08.2015 - 17:53
Mynd með færslu
 Mynd: Sigrún Hermannsdóttir - RÚV
Börn eru ekki „eign" foreldra sinna, samkvæmt umboðsmanni barna, og einkaréttur barna er friðhelgur. Kennarar mega því ekki taka af þeim eignir þeirra í skólastofum, eins og síma, nema þetta stofni öryggi nemenda í hættu. Samþykki foreldra dugir ekki til að gera slíkar aðgerðir leyfilegar.

Á undanförnum áratugum hefur viðhorfið til barna breyst mikið og nú eru börn viðurkennd sem fullgildir einstaklingar með sjálfstæð mannréttindi, eins og talað er um í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Almenn mannréttindaákvæði, eins og er líka að finna í stjórnarskrá Íslands, eiga því við um börn jafnt sem fullorðna. Því ber að sýna börnum sömu virðingu og fullorðnum, auk þess sem koma skal fram við þau af sérstakri nærgætni.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er í gildi hér á landi en orðalag þar í er að einhverju leyti túlkunaratriði. Þó Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna, telji að virða eigi friðhelgi einkaréttar barna, eru skiptar skoðanir á þessu. Einhverjir túlka orðalagið á annan hátt.

Góð reynsla af breyttu verklagi
Margrét vill gera ráð fyrir almennum mannréttindum barna. Þó ekki allir séu sammála um þetta þá túlkar hún lögin þannig og álítur börn hafa sjálfstæð réttindi og ekki nægi leyfi foreldra til að gera skerðingu á þessum réttindum ásættanlega.

Margir skólar hafi tekið vel í túlkun og tillögur umboðsmanns og breytt reglum og verklagi hjá sér. Þeir sem hafa farið að fyrirmælum Margrétar eru almennt sáttir, samkvæmt upplýsingum frá umboðsmanni barna, enda ekki ómögulegt að halda uppi aga þótt sími sé í fórum barnanna.

Margrét segir að annar möguleiki í stöðunni sé að banna snjalltæki alfarið í skólastofum. Til að opinberir aðilar megi ganga þannig á réttindi fólks, og taka eignir þeirra af þeim, þarf lagaheimild til. Nú er engar slíkar heimildir að finna í lögum eða reglugerðum um grunnskóla. Það væri þó hægt að setja slíkar heimildir í lög og þetta hefur til dæmis verið gert í Svíþjóð, samkvæmt umboðsmanni barna.

 

 

Katrín Johnson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi