Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Borgin byggir fyrir 800 mkr í Öskjuhlíð

20.09.2017 - 19:17
Mynd: RÚV / RÚV
Reykjavíkurborg ætlar að láta byggja hitaveitutank og stjörnuver í Öskjuhlíð fyrir átta hundruð og fimmtíu milljónir króna. Stjörnuverið verður leigt út og ætlar borgin að fá byggingarkostnaðinn til baka á tólf árum. Tveir af núverandi hitaveitutönkum verða leigðir út til sýningahalds.

Það eru sex hitaveitutankar í Perlunni. Í einum þeirra er sýning og þess vegna ekkert heitt vatn. Í stað þess að setja heitt vatn í þann tank á nú að byggja nýjan tank hér fyrir neðan.  Tankurinn verður skammt frá öðru bílastæðinu og rétt ofan Bústaðarvegar. 

Hvers vegna er þörf á að byggja þennan nýja tank þegar þið eigið tankinn sem er notaður undir sýninguna? „Það má segja að það séu fleiri en ein ástæða fyrir því. Í fyrsta lagi þá er ekki nægjanlegt tankarými þó svo að hann væri fylltur af vatni vegna þéttingu byggðar sem er að verða í Vatnsmýrinni og þarna í kring. Þar af leiðandi þá hentar vel að byggja nýjan tank stærri, sem rúmar meira heldur en þessi tankur og reyndar annar tankur sem við erum að semja við Veitur um að fá að nota,“ segir Hrólfur Jónsson, skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg. 

Til stendur að tæma annan tank og leigja hann líka undir sýningu. Hrólfur segir að með því verði rekstrargrundvöllur Perlunnar tryggður.
 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Jafnframt stendur til að byggja við Perluna, húsnæði undir stjörnuver, eða Planetarium. Þá verður líka byggt neðanjarðar. Þessi viðbygging verður rúmir 850 fermetrar

„Reykjavíkurborg byggir þetta en er með leigusamning við Perlu Norðursins,“ segir Hrólfur. Gert er ráð fyrir að það kosti þrjú hundruð og fimmtíu milljónir að byggja stjörnuverið. „Við teljum og vitum að við náum þessari fjárfestingu með leigusamningnum til baka á tíu til tólf árum,“ segir Hrólfur. 

Hvað reiknið þið með að það kosti svo að byggja hitaveitutankinn? „Við reiknum með að hann kosti 400 milljónir, 4-500 milljónir,“ segir Hrólfur. Samtals ætlar því borgin að byggja fyrir  750 til 850 milljónir króna í Öskjuhlíð.