Tónlistarskólinn höfðaði mál þar sem þess var krafist að Reykjavíkurborg greiddi honum það sem upp á vantaði til að greiða kennslukostnað fyrir nemendur á framhaldsstigi ásamt söngnemum á miðstigi. Samkomulag sem ríkið og sveitarfélög gerðu árið 2011 var um að efla það nám með fjárframlögum frá ríkinu.
Í framhaldi af því ákvað Reykjavíkurborg að fella niður greiðslur til þess náms umfram framlag ríkisins. Það varð til þess að á þremur skólaárum, frá 2011-2014, var rekstrarhalli skólans rúmlega 41 milljón.
Reykjavíkurborg hafnaði kröfu Tónlistarskólans á þeim forsendum að sveitarfélög ráði sjálf málefnum sínum samkvæmt lögum og ráði sjálf eigin tekjustofnum. Í lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla sé ekki lögð skylda á sveitarfélög að bjóða upp á tónlistarnám.
Í dómnum, sem féll í nóvember en hefur ekki verið birtur á vef Héraðsdóms, er vísað í sömu lög, þar sem er kveðið á um að sveitarfélög greiði laun skólastjóra og kennara í tónlistarskólum. Fallist er á að sú ákvörðun borgarinnar, að leggja ekkert í tónlistarkennslu á framhaldsstigi umfram framlag ríkisins, væri ekki í samræmi við þau lög.
Hins vegar er fallist á það að borgin ráði sjálf málefnum sínum og hún sé ekki skyldug samkvæmt lögum til að veita fjármunum til tónlistarskóla.
Þórunn Guðmundsdóttir aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík segir að dómnum hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar. Hún segir að þeirri spurningu sé ósvarað hvernig sveitarfélag, eins og Reykjavíkurborg, geti borið ábyrgð á tónlistarnámi en á sama tíma hætt að tryggja að fullu fjármagn í hana.