Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Borgfirðingar laga húsið og Stella fer á blót

14.01.2019 - 09:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Torfbærinn Lindarbakki á Borgarfirði eystra er illa útleikinn eftir svokallað Dyrfjallaveður sem magnaðist upp á miðvikudagskvöld í síðustu viku. Eigandinn, sem býr þar á sumrin, segir húsið nú óíbúðarhæft - en Borgfirðingar ætla að laga það fyrir vorið.

Íbúar á Borgarfirði eystra upplifðu veðuröfgar í síðustu viku. Á miðvikudag settu þeir hlera fyrir glugga í að minnsta kosti 17 stiga hita því spáð var suðvestan hvassviðri af Dyrfjöllum um kvöldið. Því fylgja miklar hviður og malbikið flettist af vegi við brúna yfir Fjarðará og foktjón varð í Bakkagerðisþorpi. Torfhúsið Lindarbakki skemmdist líka þegar torfið flettist af og braut skorsteininn niður í atganginum. Þar býr á sumrin Stella; Elísabet Sveinsdóttir. Hún hefur vetursetu í Kópavogi og segir skorsteinslaust húsið óíbúarhæft. „Það er ekki hægt að búa í því eins og er, það er ekki hægt að tengja eldavélina sem er Solo eldavél en það verður gert fyrir vorið þegar ég kem í júní. Það er búið að kaupa nýtt járn á þakið, það er ryðgað þak undir sem verður tekið sett nýtt þak og þökurnar settar á í vor og gert við skorsteininn,“ segir Stella. Borgarfjarðarhreppur hefur umsjón með lagfæringunum enda hefur Stella ánafnað hreppnum húsinu eftir sinn dag. 

Hún er ekki með tölvu en lét prenta út fyrir sig netfréttir svo hún gæti skoðað tjónamyndir af sumarstaðnum. Þó oft blási duglega á Borgarfirði hefur þetta aldrei gerst áður. Hlýindin fyrir Dyrfjallaveðrið hafa líklega haft sitt að segja því torfið var þurrt og létt. „Svo bara hvolfist þetta yfir eins og teppi. Þetta var allt í heilu lagi. Þetta er bara eins og teppi sem er lagt á hvolf.“

Á sumrin vekur Stella mikla athygli ferðamanna á Borgarfirði sem halda að húsið hennar sé safn og eru undrandi á því að einhver búi þar. Hún notar það líka einu sinni á vetri þegar hún kemur á þorrablót. Hún ætlar ekki að láta þetta hindra sig í því að fara heim í fjörðinn fagra næsta sumar. „Nei. Og ég er að fara á þorrablót núna, það breytir því heldur ekki,“ segir Stella.

Horfa á fréttatíma