
Borgfirðingar jákvæðir fyrir sameiningu
Ert þú fylgjandi sameiningu? „Já ég er það núna. Ég var það nú lengi vel ekki. Eins og þetta er uppsett núna þá setjum við þetta upp með heimastjórnum á hverjum stað. Það held ég að sé mjög mikilvægt. Þetta hefur aldrei verið gert hér áður. Menn eru að kaupa það svolítið. Meira að segja ráðuneytin. Þau eru mjög spennt fyrir þessu,“ segir Jakob.
Þrír eiga að sitja í heimastjórn, sem sér um alla nærþjónustu. Einn skipaður af sveitarstjórn í sameinuðu sveitarfélagi og tveir í óhlutbundinni kosningu á hverjum stað.
Skiptar skoðanir eru meðal forystumanna sveitarfélaga um lágmarksfjölda íbúa. Tjörneshreppur sagði sig úr Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna tillögu um lágmarksfjölda sveitarfélaga. Hún kveður á um að 250 manns þurfi að búa í hverju sveitarfélagi í næstu sveitarstjórnarkosningum. Í Borgarfjarðarhreppi búa um 100 manns.
Þannig þið eruð ekki á sama máli og til dæmis Tjörneshreppur? „Nei, við erum ekki staddir þar allavega. Maður veit ekki hvað gerist ef sameiningin verður ekki samþykkt.“