Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Borgarstjórn vill viðræður um Sundabraut

21.03.2017 - 16:16
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - Sundabraut
Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að borgarstjórn hefji viðræður við innanríkisráðuneytið um Sundabraut var samþykkt samhljóða á fundi borgarstjórnar síðdegis. Markmið viðræðnanna yrði að vinna að arðsemismati og kostnaðargreiningu, ákvarða endanlega útfærslu og legu brautarinnar og tímasetja framkvæmdina.

Í greinargerð tillögunnar segir að það sé „nauðsynlegt og löngu tímabært að ákveða endanlega legu og útfærslu brautarinnar svo aðrar skipulagsákvarðanir útiloki ekki hugsanlega besta kost í þeim efnum“.

Gert hafi verið ráð fyrir Sundabraut í aðalskipulagsuppdráttum Reykjavíkur frá árinu 1975. Fyrst þegar Sundabraut kom til tals hafi hún átt að tengjast um Grafarvog. Síðar hafi hún átt að vera ein meginforsendan fyrir sameiningu Reykjavíkur og Kjalarneshrepps á sínum tíma. Í greinargerðinni er rifjað upp að Sundabraut hafi síðast verið slegið á frest árið 2012 og þá til ársins 2022. Nú þegar búið sé að vinna í skipulagi í Elliðavog og Gufunesi. 

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingar, segir að nú þegar búið er að skipuleggja nýja byggð á Kirkjusandi og Gelgjutanga að þá sé búið að fækka möguleikum á því hvar Sundabrautin geti verið. Aðalskipulagið bjóði nú aðeins upp á eina leið og henni verði haldið opinni. 

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi þetta og sagði Sundabraut mikið hagsmunamál fyrir landsmenn; í henni liggi miklir möguleikar til framtíðar. Ekki sé víst að af henni verði á allra næstu árum og því þurfi að taka frá land fyrir hana.