Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Borgarstjóri hefði mátt stíga fyrr inn“

11.07.2017 - 09:36
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
„Við í pólitíkinni fréttum bara af þessu eins og aðrir í fjölmiðlum,“ segir Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata, um hversu illa upplýst var um bilun neyðarlúgunnar við dælustöðina í Faxaskjóli. Hann segir að borgarstjóri hefði mátt bregðast fyrr við og að meirihlutaflokkarnir gætu goldið fyrir málið í næstu kosningum.

Halldór ræddi um upplýsingaskyldu stjórnvalda á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

„Í stuttu máli hefði mátt gera betur. Þarna var lagt mat á það hvort að hætta gæti stafað af skólpinu. Niðurstaða Heilbrigðiseftirlitsins var að svo hefði ekki verið og því var tekin sú ákvörðun að upplýsa ekki yfirstjórn borgararinnar. Við í pólitíkinni fréttum bara af þessu eins og aðrir í fjölmiðlum,“ segir Halldór.

Halldór segir að ramminn og skilaboðin milli borgarinnar, Veitna og heilbrigðiseftirlitsins séu ekki nægilega skýr. „Okkar hlutverk er að leggja þarna skýrar línur.“ Halldór segir mikilvægt að upplýsa um meira frekar en minna. Ábyrgð borgarstjóra og borgarfulltrúa felist í því að stíga upp og viðurkenna mistök. 

Halldór segir að bæði Veitur og heilbrigðiseftirlitið hafi ekki gengið nógu langt í að sinna upplýsingaskyldu sinni, en stjórnendur Veitna báðust í gær afsökunar á þeim óþægindum sem skortur á upplýsingagjöf um bilun neyðarlúgunnar við dælustöðina í Faxaskjóli hafði í för með sér. 

Tæpt ár er til borgarstjórnarkosninga. Heldur Halldór að þetta mál fylgi meirihlutanum inn í kosningar? „Já það má vera að þetta komi upp en það veltur líka mikið á viðbrögðum og hvernig verður tekið á þessu,“ segir Halldór.

„Ég held að borgarstjóri hefði mögulega mátt stíga fyrr inn. Hann hefur verið í sumarfríi og kannski ekki verið með mat á aðstæðum alveg í upphafi.“