Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Borgarlögmaður leggur ekki mat á saknæmi

13.01.2019 - 10:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson
Borgarlögmaður er ekki í aðstöðu til að leggja mat á það hvort saknæm háttsemi kunni að hafa átt sér stað í tengslum við braggamálið. Engin slík athugun hefur farið fram eða er fyrirhuguð af hálfu borgarlögmanns. Þetta kemur fram í svari Ebbu Schram, borgarlögmanns, við fyrirspurn fréttastofu, um það hvort grunur sé um saknæmt athæfi í tengslum við málið.

Álit borgarlögmanns um málið var lagt fram í innkauparáði borgarinnar 18. október síðastliðinn. Í því kom fram að ekki hafi verið skylt að bjóða út framkvæmdir og því hafi lög ekki verið brotin. Hins vegar hafi ekki verið farið eftir innkaupareglum borgarinnar við gerð samninga um framkvæmdina.

Í svari borgarlögmanns við fyrirspurn fréttastofu segir að hann hafi einungis haft þau gögn til skoðunar sem voru nauðsynleg til að gera álit til innkauparáðs á útboðsskyldu samninga vegna uppbyggingar á húsunum við Nauthólsveg 100. Í álitinu hafi ekki verið fjallað um ætlað saknæmi athafna við hönnun eða uppbyggingu fasteigna á svæðinu. „Þar sem borgarlögmaður hefur hvorki haft öll gögn málsins til skoðunar né rætt við helstu aðila sem höfðu aðkomu að málinu með tilliti til annarra atriða en þeirra sem lúta að opinberum innkaupum, þá er borgarlögmaður ekki í aðstöðu til að leggja mat á það hvort saknæm háttsemi kunni að hafa átt sér stað í tengslum við framangreint mál. Engin slík athugun hefur því farið fram eða er fyrirhuguð af hálfu borgarlögmanns,“ segir í svarinu.

Borgarlögmaður segir að athugun Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar hafi ekki leitt í ljós að misferli hafi átt sér stað í tengslum við framkvæmdirnar. Það sé hluti af verklagi og skyldu Innri endurskoðunar að vísa málum til viðeigandi embætta ef grunur er um saknæmt athæfi. Haft var eftir Vigdísi Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokks, í fréttum í gær að það væri nauðsynlegt að borgarstjórn fengi að greiða atkvæði um það hvort vísa eigi skýrslu Innri endurskoðunar til héraðssaksóknara áður en ákveðið verði hvort fulltrúar kæri málið sjálfir til lögreglu. Hún sagði að rétti farvegurinn væri að taka málið fyrir í borgarstjórn. Þar verður gert á þriðjudag.