Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Borgarlína kostar allt að 70 milljarða

07.06.2017 - 08:46
Mynd með færslu
 Mynd: Mannvit
Gera má ráð fyrir því að ný borgarlína kosti 62 - 70 milljarða. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu leggja til breytingar á svæðisskipulagi sveitarfélaga sem þarf til að koma upp línunni og verða breytingatillögur kynntar í Salnum í Kópavogi í dag. Rætt var við Hrafnkel Á. Proppé svæðisskipulagsstjóra í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Borgarlínan er hraðvagnakerfi sem getur flutt mikinn fjölda fólks um höfuðborgarsvæðið.  Hrafnkell segir að hún sé hágæðaalmenningssamgöngukerfi og að vagnarnir þurfi að geta ferðast um óháð annarri umferð. 

„Það þarf að vera mikil tíðni þannig að tímataflan fer að hætta að skipta hinn almenna notanda máli.

Það sem við erum að gera akkúrat núna er fyrst og fremst að draga upp framtíðarheildarnet þannig að þó það yrði nú byggt í einhverjum áföngum að á endanum mundi nú vera eitthvað vit í því. Þær svona kostnaðaráætlanir sem við erum með í dag gera ráð fyrir að heildarkostnaðurinn ef allt netið væri byggt upp liggi þá einhverstaðar á bilinu 62 til 70 milljarðar. En ég held að það séu nú allir það raunsæir að sjá að það gerist ekki einn, tveir og þrír ekki frekar en heildarnet stofnvegakerfisins sem hefur verið teiknað upp á höfuðborgarsvæðinu allt frá því 63.

Hrafnkell segir að strætisvagnar verði áfram. Borgarlína dekki ekki allt höfuðborgarsvæðið heldur fari hún þar sem byggðin er þéttust og flytji fjöldann. Strætókerfið verði lykilatriði og allir samgöngumátar verði að spila saman.  

„Það þarf að vera auðvelt að komast gangandi að kerfinu, hjólandi, þannig það þarf að hugsa um þá sem koma á hjólum að svona stórum stöðvum. Svo eru þeir sem eru á bíl, og þekkt að fólki sé skutlað í svona kerfi.“ 

Meginbreytingin á skipulagi felst í því að hvert og eitt sveitarfélag er að breyta sínu skipulagi og setja inn línurnar og svokallaðar kjarnastöðvar. Hrafnkell segir að sveitarfélögin hafi skrifað undir samkomulag um að klára skipulagið á þessu ári. 

„Það gengur út á það að við ætlum að vera með í rauninni lokatillögurnar um mitt ár. Þessi forkynning núna er liður í því.  Það er mjög mikilvægt að nýta þessa lýðræðislegu ferla sem skipulagslög kveða á um og spegla hugmyndirnar út í samfélagið áður en við förum að móta lokatillögur en þær ættu þá að liggja fyrir svona síðsumars.“

 

 

 

 

 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV