Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Borgarlína á næstu árum og flöskuhálsum eytt

21.09.2018 - 17:37
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Samgönguráðherra, borgarstjóri og bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um að hefja viðræður um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er að ná samkomulagi um fjármagnaða áætlun um fjárfestingar í stofnvegum og kerfi almenningssamganga á höfuðborgarsvæðinu. Í viljayfirlýsingu er talað um að hefja framkvæmdir við „hágæða almenningssamgöngur“ á þarnæsta ári og eyða flöskuhálsum.

Stefna á „að sjálfbæru, kolefnishlutlausu borgarsamfélagi og öflugri almenningssamgöngum í takt við loftslagsáætlun stjórnvalda og áherslur sveitarfélaganna,“ segir í yfirlýsingunni. Sameiginlegur verkefnahópur undir forystu Hreins Haraldssonar, fyrrverandi vegamálastjóra, á að vinna að forgangsröðun, fyrirkomulagi fjármögnunar og útfærslu verkefna.

Í viljayfirlýsingunni segir að eyða eigi flöskuhálsum til að bæta umferðarflæði og auka umferðaröryggi. Þá eru þeir sem undirrita yfirlýsinguna sammála um að bæta almenningssamöngur og að framkvæmdir við hágæða almenningssamgöngur hefjist á árinu 2020. Jafnframt verði skoðaðar nýjar fjármögnunarleiðir svo sem með nýrri gjaldtöku ríkisins og gjaldtökuheimildum sveitarfélaganna. Eftir að viðræðum um þessi atriði er lokið á starfshópurinn undir forystu fyrrverandi vegamálastjóra að leiða til lykta málefni Sundabrautar.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segir á Facebook-síðu sinni að með þessu sé óvissu um borgarlínu eytt, framkvæmdir hefjist árið 2020.