Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Borgarfulltrúi Pírata hættir í vor

03.09.2017 - 17:48
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata í Reykjavík, tilkynnti í dag að hann ætli ekki að gefa kost á sér til endurkjörs í borgarstjórnarkosningum næsta vor. Hann var fyrst kosinn í borgarstjórn árið 2014. Halldór segir að hann hafi frá upphafi ætlað sér að sitja að hámarki í tvö kjörtímabil í borgarstjórn en meta áður en að kosningum á næsta ári kæmi hvort hann treysti sér í tvö kjörtímabil frekar en eitt.

Halldór Auðar tilkynnti um ákvörðun sína á aðalfundi Pírata í Reykjavík í dag og birti svo færslu um ákvörðun sína á Facebook-síðu sinni. Hann segist ætla að starfa áfram innan Pírata.

„Síðasta stærsta verkefni mitt verður að tryggja að kláruð verði almenn lýðræðisstefna fyrir borgina. Ég held sem fyrr segir að gildi formlegrar stefnumótunar sem tæki til að innleiða breytingar verði síst vanmetið. Þegar þessi verkefni eru komin í gegn get ég gengið sáttur frá borði og mun bjóða nýja félaga velkomna í stýrishúsið í vor, sem verða samkvæmt hefðum og reglum Pírata valdir af félagsmönnum í prófkjöri,“ segir Halldór Auðar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV