Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Borgarbókasafnið reynir að mæta útigangsfólki

Mynd: rúv / rúv
Það eru allir velkomnir á Borgarbókasafnið við Tryggvagötu svo framarlega sem þeir neyta ekki áfengis eða vímuefna inni á safninu, eru ekki áberandi ölvaðir eða lyfjaðir, ekki með háreysti og ekki leggur af þeim stækan óþef. Það getur stundum reynst krefjandi fyrir bókaverði að mæta útigangsmönnum sem sækja bókasafnið og samræma þarfir þeirra þörfum annarra gesta en það er eitthvað sem miðborgarsöfn um allan heim kannast við. Sumir kvarta öðrum finnst fallegt að þessi hópur eigi skjól á safninu.

FJöldinn sveiflast

„Ég myndi ekki segja að þetta væru margir og þetta gengur svolítið í bylgjum. Ég hef á tilfinningunni að sumir hafi kannski ekki í önnur hús að venda, það gæti verið ákveðið vandamál fyrir okkar samfélag.“ 

Það koma fleiri þegar tíðarfarið er rysjótt. Þetta er fólk á öllum aldri. Pálína segir að undanfarið hafi fækkað í þessum hópi. Líklega vegna þess að húsnæði safnsins var breytt í fyrra. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Pálína Magnúsdóttir, borgarbókavörður.

Úr skotinu og upp á fimmtu

Þegar gengið er inn á Borgarbókasafnið við Tryggvagötu er móttakan á vinstri hönd en gangur beint af augum. Inn af honum eru salerni og við enda hans er glerveggur. Glerveggurinn var settur upp í fyrra og þar með var skoti þar sem hægt var að sitja við borð, fjarri erli safnsins lokað. Þar átti útigangsfólk ákveðið afdrep. Skotinu var þó ekki lokað vegna þess, heldur vegna framkvæmda innanhúss. Þeir úr þessum hópi sem enn venja komur sínar á safnið halda nú flestir til uppi á fimmtu hæð, þar er rólegt. 

„Það þarf ekkert endilega að sækja sér safnsefni, það getur verið að ná sér í hlýju, eða griðastað eða komast á netið.“ 

Það kemur alls konar fólk á safnið, sumir mæta snemma morguns og fara á kvöldin, sofna jafnvel í sófanum. Pálína segir mér frá manni sem kom á hverjum degi, starfsfólkið var farið að velta því fyrir sér hvort hann væri heimilislaus, svo kom í ljós að hann leigði lítið herbergi, þótti bara gott að fá að dvelja í stærra rými. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Sumir koma til að lesa blöðin, aðrir sækja í skjól.

Kemur og biðst afsökunar næsta dag

Það eru allir velkomnir, svo framarlega sem þeir fylgja almennum samskiptareglum. Ef fólk er drukkið eða í vímu, með læti eða leiðindi er því vísað frá, annars er það velkomið. Það hafa komið upp alvarleg atvik. „Við höfum þurft að eiga við fólk sem er veikt á geði og hefur aðeins misst sig, við höfum þurft að díla við slagsmál en sem betur fer er þetta mjög sjaldgæft. Fólk kemur gjarnan daginn eftir og biðst afsökunar á hegðun sinni. Fólk vill gjarnan eiga góð samskipti við okkur, finnst gott að koma hérna og finnst miður ef eitthvað gerist. Við höfum líka orðið vör við að þau passa svolítið upp á hvert annað, vísa hvert öðru frá ef þau eru með hegðun sem fólki hugnast ekki almennt.“ 

Hún segir að það komi kannski fyrir einu sinni í mánuði að starfsfólk þurfi að beita hörðu. Þá eru dæmi um að fólk hafi ítrekað brotið reglur safnsins og verið sett á bannlista. 

Fundað með lögreglu og salernum læst

Það getur verið krefjandi fyrir starfsfólk safnsins að umgangast þennan hóp og það hafa verið gerðar ýmsar ráðstafanir vegna hans. Það eru neyðarhnappar á fyrstu og fimmtu hæð og nýlega var skipulagi breytt þannig að nú eru alltaf tveir starfsmenn á vakt á fimmtu hæð, áður var þar bara einn. Salernunum var læst í fyrra. „Það var aðallega út af umgengni, við vorum að finna sprautur og svo var bara almenn umgengni um klósettin slæm. Fólk þarf núna að biðja um lykil í afgreiðslunni og ræstingin í húsinu segir að það sé stór munur á, það er greinilega einhver stoppari að þurfa að biðja um leyfi.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Eftir að salernum var læst batnaði umgengnin.

Starfsfólk safnsins hefur að sögn Pálínu átt í ágætis samstarfi við lögregluna og haldið fundi. „Mér skilst það hafi verið mjög gott á báða bóga, aukið skilning lögreglunnar á því að við værum að fá inn fólk sem stundum gæti valdið vandræðum. VIð þurfum líka að eiga samtal við starfsfólk, eðlilega. Mörgum finnst óþægilegt að hafa sumt fólk sem kemur inn í kringum sig, við þekkjum öll hvernig það er. Það þarf að læra að eiga þessi samskipti og hvernig maður á til dæmis að vísa fólki sem lyktar mjög illa frá. Það er mjög viðkvæmt persónulegt mál sem getur verið mjög erfitt að nálgast. VIð reynum að sjálfsögðu að gera þetta og þurfum stanslaust að eiga þetta samtal. Kannski rétt að taka það fram að ég held að bókasöfn alls staðar í heiminum þurfi að eiga þetta samtal, bæði við starfsfólkið og kúnnana því þetta er svona týpískt miðbæjarsafna vandamál, ef það á að kalla það vandamál.“  

Alltaf í umræðunni

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Bókasafnið er almannarými.

Komur útigangsfólks og fíkla á bókasafnið eru mikið ræddar meðal starfsfólks safnsins. Pálína segir að skoðanir þess á því hvaða úrræðum eigi að beita hverju sinni séu mismunandi, þá sé mismunandi hvar mörk hvers og eins liggi.

„Ég held því fram, og við erum bara mjög ákveðin í því að þetta er almannarými og hér eru allir velkomnir.“

Nokkuð um kvartanir

Það er nokkuð um að safngestir kvarti undan þessum hópi.  „Að sjálfsögðu kvartar fólk stundum undan lykt eða þegar það verður vart við að fólk sé að neyta áfengis eða vímuefna. Þá tökum við á því.“

Síðastliðnar vikur hefur safnið verið með þjónustukönnun meðal gesta. „Ég fór aðeins yfir það í gær og fann einn miða þar sem á stóð: Mér finnst fallegt hvað þetta er góður griðastaður fyrir fólk sem mörgum finnst óþægilegt. Á öðrum miða stóð: Mér finnst mjög erfitt að koma hér inn með börn af því hér er fólk sem er óþægilegt. Þetta er alveg í báðar áttir.“

Fékk að lesa blöðin úti á stétt

Starfsfólk safnsins reynir að mæta hverjum og einum. Þannig gat manneskja sem ekki taldist húsum hæf vegna lyktar samið við húsvörðinn um að taka dagblöð með sér út á stétt og lesa þau þar. 

„Það var sjálfsagt því hún skilaði þeim alltaf mjög samviskusamlega. Við eigum margar svona fallegar sögur um fólk sem er ekki til vandræða þannig séð en það er eitthvað í fari þess sem gerir það að verkum að það er ekki alltaf, að sumu leyti húsum hæft.“ 

Koma skilaboðum áleiðis

Starfsfólk safnsins hefur líka verið í sambandi við velferðarsvið borgarinnar og aðra vegna þessa hóps og tekur stundum að sér að koma til þess skilaboðum eða geyma fyrir það mikilvæg gögn. „Þá er gjarnan leitað til okkar, athugað hvort við höfum séð viðkomandi og skilaboðum þannig komið áleiðis. Þar hefur myndast ákveðið traust til almenningsbókasafnsins af báðum aðilum. Ég vil garnan vera partur af svona samfélagi, eins og þegar kom upp svona tilfelli eins og í fyrra þegar vonda veðrið gekk hér yfir og við þurftum að loka fyrir fimm. Þá gengu hér símtöl á milli fólks innan borgarapparatsins og verið að leita að útigangsfólki sem er þekkt til að koma því í skjól. Þá var hringt til okkar og spurt hvort við værum búin að sjá þennan eða hinn í dag.“ 

Hópferð í bíó til Bandaríkjanna?

Eins og Pálína segir, þetta er fámennur hópur og sjaldnast til vandræða. Miðborgarsöfn víða um heim eiga það sameiginlegt að laða að sér fólk sem orðið hefur undir í samfélaginu eða þarfnast einhvers konar afdreps.

„Við höfum gantast með það hér að það er að koma út bíómynd sem heitir The public og gerist á almenningsbókasafni í Cincinatti og fjallar um útigangsfólk, við erum mjög spennt, ég held við förum í hópferð héðan.“ 

Segir Pálína og hlær. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV