Borgarbarnið grætur á grindunum

Mynd með færslu
 Mynd:

Borgarbarnið grætur á grindunum

16.05.2012 - 10:03
Það er ekki oft nú orðið sem maður heyrir af ungu fólki sem kýs að búa afskekkt. Birna Hjaltadóttir er ein þeirra. Í sumar flytur hún úr Vesturbæ Reykjavíkur og tekur við stöðu skólastjóra grunnskólans í Drangsnesi, bæ þar sem aðeins 72 búa.

Birna er svo sem ýmsu vön, hún ólst upp norður á Ströndum, á Bæ í Árneshreppi. Birna er nú stödd á Bæ þar sem hún hjálpar systur sinni við sauðburðinn. Við slógum á þráðinn til hennar og fengum fréttir úr fjárhúsunum en þá var hún nýkomin af næturvakt.

„Það báru þrettán kindur í nótt ... og það gekk bara allt rosalega vel.“

Þáttarstjórnandi: Engar erfiðar fæðingar?

„Jú, nokkrar. Er það ekki alltaf? Maður heldur alltaf að þetta sé að fara ... þangað sem það á ekki að fara en einhvernveginn nær þetta oftast að bjargast og það er góð tilfinning. Maður er náttúrlega orðin svo mikið borgarbarn maður grætur bara á grindunum ef eitthvað leiðinlegt gerist,“ segir Birna í gamansömum tón.