Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Borgaralaun í Finnlandi á næsta ári

30.03.2016 - 19:01
epa05090629 The work 'Lampounette' by the TILT group is on display in the Esplanade as part of the Lux Helsinki light festival, in Helsinki, Finland, 06 January 2016. National and international artists created artworks for the festival running
 Mynd: EPA - COMPIC
Stjórnvöld í Finnlandi stefna að því að byrja á næsta ári að greiða fólki, sem í dag þiggur bætur, svonefnd borgaralaun. Upphaflegar tillögur gerðu ráð fyrir að allir fengju borgaralaun en það þykir of kostnaðarsamt.

Borgaralaunin, eða svonefnd óskilyrt framfærsla, voru eitt helsta kosningaloforð Miðflokks Juha Sipilä, sem sigraði í finnsku þingkosningunum í fyrra. Samkvæmt þeim er hverjum borgara tryggð ákveðin lágmarksinnkoma frá hinu opinbera, óháð öðrum tekjum.

Vinnuhópur á vegum finnsku stjórnarinnar hefur undanfarna mánuði unnið að útfærslum á tillögum um borgaralaunin og í dag kynnti hópurinn niðurstöður sínar á fréttamannafundi í Helsinki. Finnska ríkisútvarpið YLE greinir frá þessu.

Í skýrslu hópsins er raunar nokkuð dregið í land miðað við fyrstu hugmyndir. Talið er of dýrt að tryggja öllum borgurum óskilyrta framfærslu. 

Í staðinn er lagt til að ríkið prófi að greiða fólki, sem er með lág laun eða þiggur bætur, allt að 750 evrur á mánuði, um hundrað þúsund krónur, meðal annars til að sjá hvort atvinnuþáttaka þess aukist.

Ríkisstjórn Juha Sipilä fær nú tillögurnar til meðferðar og búist er við að á næsta ári hefjist útgreiðsla borgaralauna til þessa þjóðfélagshóps.

sveinnhg's picture
Sveinn H. Guðmarsson
Fréttastofa RÚV