Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Borgar sig ekki að leigja út

05.10.2015 - 09:06
Mynd: RÚV / RÚV
Hagkvæmara er að fjárfesta í ríkisskuldabréfum en í fasteignum til þess að leigja út, segir Ari Skúlason hagfræðingur í hagfræðideild Landsbankans. Hann segir ekki byrjað á 400 leiguíbúðum sem talað var um að byggja á þessu ári.

Ari Skúlason ræddi um leigumarkaðinn í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hátt leiguverð hefur verið mikið til umræðu undanfarið og Ari segir að leigumarkaðurinn nú sé sannarlega seljendamarkaður. Fáar íbúðir séu í boði fyrir þá fjölmörgu sem vilji leigja þær. Leigusalar geti þó haft betur upp úr því að ávaxta fé sitt annars staðar en í útleigu:
„Til dæmis ef ég stend í því, á ég að kaupa mér húsnæði til þess að leigja það út eða á ég að koma mér ríkisskuldabréf sem er örugg fjárfesting þá hef ég ekkert meira upp úr því að leigja út. Þar er ég með áhættu, þar er ég með vesen og svo framvegis. En varðandi ríkisskuldabréfið eða aðra fjárfestingarkosti þá get ég bara setið í sófanum og drukkið mitt kaffi. En að jafnaði þá er það þannig að einstaklingar og fyrirtæki sem að leigja út húsnæði eru ekkert sérstaklega að ríða sérstaklega feitum hesti frá því.“

Ari segir ekki vanta að rætt sé um að byggja leiguíbúðir, minna sé um að það sé gert:
„Samkvæmt hugmyndunum og tillögunum sem eru uppi þá á að byggja 400 leiguíbúðir á þessu ári núna. Ég veit ekki til þess að það sé byrjað á því sko. Það gildir um þetta eins og svo margt sko að þetta dvelur lengi á hugmynda og umræðustiginu og er svo í nefndum í töluvert langan tíma.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV