Borga laun í þriðjungi tilfella

Mynd með færslu
 Mynd: Tinna Guðmundsdóttir - RÚV - Arnaldur Máni Finnsson

Borga laun í þriðjungi tilfella

30.11.2015 - 09:59

Höfundar

„Við höfum getað greitt myndlistarfólki fyrir þátttöku í sýningum einu sinni á þessu ári, “ segir Tinna Guðmundsdóttir forstöðumaður Skaftfells á Seyðisfirði. Hún segir það þungan róður að reka menningarstofnanir á landsbyggðinni vegna allskyns dulins kostnaðar. Fjárskortur bitni oftast á þeim sem síst skyldi, listafólkinu sem skapi verkin. Myndlistarmenn hafa sett fram kröfugerð um að um að greiða skuli sérstaklega fyrir alla vinnu sem listamenn taka að sér í tengslum við sýningar.

Föstudaginn 20.nóvember hrinti Samband íslenskra myndlistarmanna af stað herferðinni „Við borgum myndlistarmönnum“ með baráttufundi í Reykjavík. Tinna Guðmundsdóttir segist styðja heilshugar við átakið en því miður sé landslagið þannig í rekstri menningarstofnanna á landsbyggðinni að dulinn kostnaður vegi þungt. Meðal annars megi nefna kostnað vegna flutninga verka, listafólks og trygginga, en sárasjaldan rúmist það innan kostnaðaráætlanna að greiða listafólkinu laun vegna sinnar vinnu. Tinna myndi óska þess að geta greitt þeim laun í öllum tilfellum en á síðasta ári hafi það aðeins tekist í tengslum við eina sýningu af þremur. 

Eins og staðan sé í fjármögnun Skaftfells myndlistarmiðstöð Austurlands, þá sé útlit fyrir að hún þurfi að segja upp starfsfólki sem sinnir fræðsluverkefnum stofnunarinnar á Austurlandi og rekstri gestavinnustofa. Þrjár alþjóðlegar vinnustofur eru reknar á Seyðisfirði í tengslum við Skaftfell sem Tinna segir gríðarlega mikilvægar fyrir orðspor stofnunarinnar á heimsvísu. Tinna segist vera búin að reyna allt í fjármögnun starfsins og megnið af rekstrarfé alþjóðlegs samstarfs komi erlendis frá.

„Hér eru í kringum 20-25 manns á ári sem bera hróður okkar víða, eða heillast af staðnum og setjast hér að. Þetta er lífæð þess öfluga starfs sem hér er rekið. Það starfsfólk sem sinnir þessum hluta sem og fræðsluverkefninu sem við erum í raun skuldbundin til að sinna, er því miður í hættu núna. Ef við komumst ekki inn á fjárlög eins og í fyrra þá verð ég að segja þeim upp,“ segir Tinna Guðmundsdóttir.

Þungamiðja herferðarinnar „VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM” er að gerðir verði skriflegir samningar um þátttöku og framlag listamanna til sýningahalds, þar sem kveðið er á um að greiða skuli sérstaklega fyrir alla vinnu sem listamenn taka að sér í tengslum við sýningar, bæði fyrir, eftir og meðan á sýningu stendur ásamt því að greidd sé þóknun fyrir sýnd verk. 

Tengdar fréttir

Mannlíf

Skaftfell fékk Eyrarrósina